Árás var gerð á bandaríska herstöð í Jórdaníu í gær með þeim afleiðingum að þrír bandarískir hermenn létust. Beindust augun í kjölfarið að Íran en stjórnvöld þar hafa neitað að hafa átt þátt í árásinni.
Umrædd herstöð er skammt frá landamærum Jórdaníu, Sýrlands og Íraks og særðust tugir hermanna til viðbótar við þá sem létust.
Í færslu á Truth Social sagði Trump að heimurinn væri „ á barmi þriðju heimsstyrjaldarinnar“ og fullyrti hann að árásin sem gerð var í gær hefði aldrei átt sér stað ef hann væri forseti. Gagnrýndi hann ríkisstjórn Bidens fyrir „linkind og uppgjöf“ og árásin væri bein afleiðing þess.
„Árásin hefði ALDREI átt sér stað væri ég forseti, ekki einu sinni möguleiki – Alveg eins og innrás Hamas, með stuðningi Írans, í Ísraels hefði aldrei gerst. Stríðið í Úkraínu hefði aldrei átt sér stað og það væri friður um heim allan. Þess í stað erum við á barmi þriðju heimsstyrjaldarinnar,“ sagði forsetinn fyrrverandi og bætti við að hann hefði haft fullkomna stjórn á írönskum yfirvöldum þegar hann hætti sem forseti.
Trump lofaði að koma þessum atriðum í lag ef hann verður kjörinn forseti að nýju.