fbpx
Laugardagur 15.mars 2025
Fréttir

Vilhjálmur fékk bréf frá fimm manna fjölskylduföður – Meiri ávinningur að semja um 0% launahækkun

Ritstjórn DV
Mánudaginn 29. janúar 2024 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að langmesta kjarabótin fyrir launafólk væri að semja um 0% launahækkun á þessu ári með því skilyrði að ríki og sveitarfélög dragi til baka að fullu þær gjaldskrárhækkanir sem tóku gildi um áramótin.

Vilhjálmur viðraði þessa hugmynd í Spursmálum á föstudag og hefur hún vakið þó nokkra athygli.

Eðli málsins samkvæmt þyrfti þetta að vera háð þeim skilyrðum að gjaldskrárhækkanir ríkis og sveitarfélaga verði dregnar til baka. Einnig að gjaldskrár- og verðlagshækkanir fyrirtækja og stofnana verði dregnar til baka og verðlag fryst næstu tólf mánuðina.

41.700 króna hækkun

„Með þessu yrði verðbólgumarkmiðum Seðlabankans náð með skjótum hætti sem myndi tryggja verulega lækkun vaxta á næstu 12 mánuðum. Já, ég er að tala um verðlagsfrystingu næstu 12 mánuðina í skiptum fyrir launahækkanir á næstu 12 mánuðum,“ segir Vilhjálmur í pistli á Facebook-síðu sinni.

Hann nefnir svo dæmi um fimma manna fjölskylduföður sem sendi honum og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, bréf þar sem fram kom að greiðslubyrði hjá hans fjölskyldu hefði hækkað um 41.700 krónur á mánuði bara vegna hækkana á þremur liðum.

„Þessir liðir voru vegna leikskóla- og fasteignagjalda sem og vegna hækkunar á hita og rafmagni.  Munið að Samtök atvinnulífsins hafa hafnað tilboði frá Breiðfylkingunni sem átti að skila launafólki einungis 16.700 kr. í vasann eftir skatta. En fyrir þennan fimm manna fjölskylduföður þyrfti að hækka laun um 65.000 kr. á mánuði til að hann myndi hafa 41.700 kr. í vasann eftir skatta.“

Beina slöngunni að verðbólgubálinu

Vilhjálmur segir að á þessu dæmi sjáist að það er miklu, miklu meiri ávinningur fyrir launafólk að semja um 0% launahækkun gegn því að allar hækkanir í íslensku samfélagi verði dregnar til baka.

„Þótt samið yrði um 0% launahækkun á fyrsta ári væri hægt að gera langtímasamning með hóflegum hækkunum til að tryggja lagfæringu á tilfærslukerfunum eins og Breiðfylkingin hefur lagt til við stjórnvöld. Hugsið ykkur ef allir axla ábyrgð og taka höndum saman og stökkva á brunaslönguna og beina slöngunni að verðbólgubálinu þá mun slökkva hratt í þessu verðbólgubáli öllum til hagsbóta.“

Vilhjálmur segir að með lækkun verðbólgu megi ætla að vextir muni lækka hratt.

„Munum að íslensk heimili skulda skv. Hagstofunni 2980 milljarða svo 2,5% lækkun á vöxtum myndi skila heimilunum 74,5 milljarða ávinningi. Sem er miklu meira en launahækkanir myndu skila. Þá er allur ávinningurinn eftir af því að gjaldskrár- og verðlagshækkanir yrðu dregnar til baka og verðlag fryst í 12 mánuði.“

Ekki bara ávinningur fyrir heimilin

Vilhjálmur segist vona að allir átti sig á þeim ávinningi sem fælist í þessari leið en ítrekar að hún byggist á að allir taki þátt og axli ábyrgð.

„Eina spurningin er myndu fyrirtæki innan Samtaka atvinnulífsins vilja draga sínar hækkanir til baka sem og ríki og sveitarfélög. Ávinningur þeirra er líka gríðarlegur enda skulda fyrirtæki 3000 milljarða þannig að lækkun á vöxtum upp á 2,5% myndi skila þeim 75 milljarða ávinningi. Sveitarfélögin skulda 527 milljarða þannig að ávinningur þeirra yrði einnig mikill. Ekki má gleyma að ríkissjóður skuldar 1650 milljarða þannig að þeirra ávinningur yrði einnig gríðarlegur með lækkun vaxta.“

Vilhjálmur segir að endingu að ef þessi aðferðafræði næði fram að ganga og myndi leiða til lækkunar vaxta upp á 2,5% á innan við 12 mánaða tímabili myndi það skila heimili með 33 milljóna húsnæðislán lækkun á vaxtabyrði sem næmi 68 þúsund krónum á mánuði.

Bendir Vilhjálmur að lokum á nokkur dæmi um gjaldskrárhækkanir sem þyrfti að draga til baka. Á þeim sjáist  sá ávinningur sem fengist við þessa leið:

Fasteignagjöld 25%

Tryggingar 10%

Landsnet 14,5%

Pósturinn 12,5%

Öryggismiðstöðin 11%

Gjaldskrár sveitarfélaga 7 til 25%

Sorphirðugjöld meðaltal 30%

Bifreiðagjöld 30%

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

„Hvað ætlum við að gera öðruvísi núna svo við höldum ekki áfram að framleiða hættulega afbrotamenn á færibandi?“

„Hvað ætlum við að gera öðruvísi núna svo við höldum ekki áfram að framleiða hættulega afbrotamenn á færibandi?“
Fréttir
Í gær

Trausti sár út í Sönnu – „Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“

Trausti sár út í Sönnu – „Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“