Miðjumaðurinn Donny van de Beek er heldur betur að upplifa erfiða tíma á fótboltavellinum en hann er leikmaður Frankfurt í Þýskalandi í dag.
Van de Beek er í láni hjá Frankfurt frá Manchester United þar sem hlutirnir gengu alls ekki upp og var hann því sendur til Þýskalands.
Hollendingurinn vakti fyrst athygli sem leikmaður Ajax í Hollandi en eftir að hafa yfirgefið heimalandið hefur lítið sem ekkert gengið upp.
Van de Beek er ekki að eiga sjö dagana sæla hjá Frankfurt en hann var tekinn af velli í hálfleik á föstudag í leik gegn Mainz.
Miðjumaðurinn átti alls ekki góðan fyrri hálfleik í þessari viðureign og var ákveðið að taka hann af velli sem fyrst.
Van de Beek var lánaður til Frankfurt í byrjun mánaðarins og hefur hingað til komið við sögu í þremur leikjum.