Barcelona spilaði ansi illa í gær er liðið tapaði 5-3 heima gegn Villarreal en það eru úrslit sem koma mörgum á óvart.
Barcelona er ekki lið sem fær venjulega á sig fimm mörk á heimavelli en Villarreal skoraði tvö mörk í uppbótartíma til að tryggja sigurinn.
Joao Cancelo átti ekki góðan leik fyrir Börsunga en um er að ræða bakvörð sem er í láni frá Manchester City.
Cancelo var fyrstur til að viðurkenna eigin mistök eftir leik og er alveg sammála því að hann hafi verið undir pari í viðureigninni.
,,Frammistaða mín í dag var stórslys. Ég mun gefa allt í æfinguna á morgun svo ég verði tilbúinn á miðvikudag,“ sagði Cancelo.
,,Þetta er ekki þjálfaranum að kenna. Hann útskýrði hlutina vel en ég fylgdi ekki þeim fyrirmælum. Það verður erfitt að vinna deildina úr þessu en mögulegt.“