Jurgen Klopp er að yfirgefa lið Liverpool en hann greindi frá því í gær og verður án félags þegar tímabilinu lýkur.
Það er ekki víst hver tekur við keflinu en Xabi Alonso, fyrrum leikmaður liðsins, hefur verið orðaður við starfið.
Alonso hefur gert stórkostlega hluti með Bayer Leverkusen í Þýskalandi og þykir vera gríðarlega efnilegur þjálfari.
Annar fyrrum leikmaður Liverpool, Luis Garcia, vill ekki sjá Alonso taka við Liverpool strax en það fylgir því gríðarleg pressa að taka við af Klopp sem hefur gert magnaða hluti á undanförnum árum.
,,Stundum þarftu að taka því rólega og ekki flýta þér að hlutunum. Ég er ekki að segja að Xabi sé ekki tilbúinn að taka við svo stóru liði en ég hef séð það sem hann hefur gert hjá Leverkusen,“ sagði Garcia.
,,Hann hefur gert stórkostlega hluti og var að skrifa undir nýjan samning en hann er orðaður við Real Madrid, Liverpool og Bayern Munchen. Ég er hrifinn af því sem hann er að gera í dag, eitt skref í einu.“
,,Ég vil ekki sjá hann taka við af Jurgen Klopp því það verkefni er gríðarlega stórt eftir allt sem hann gerði fyrir félagið. Allir munu búast við að Xabi skili því besta um leið, þeir vilja sjá Liverpool berjast um alla þá titla sem eru í boði.“