Zinedine Zidane er enn án starfs eftir að hafa yfirgefið lið Real Madrid þar sem hann náði frábærum árangri sem bæði leikmaður og þjálfari.
Margir bíða eftir að sjá hvað Zidane gerir næst en hann hefur verið orðaður við þónokkur félagslið sem og landslið.
Samkvæmt L’Equipe í Frakklandi fékk Zidane freistandi boð á dögunum um að taka við liði Alsír sem féll óvænt úr keppni í riðlakeppni Afríkukeppninnar.
Báðir foreldrar Zidane koma frá Alsír en hann ólst upp í Frakklandi og gerði garðinn frægan sem landsliðsmaður Frakka.
Zidane var víst mjög stoltur að heyra af áhuga Alsír en hafnaði boðinu – landsliðið er nýbúið að reka Djamel Belmadi úr starfi.
Belmadi náði flottum árangri sem landsliðsþjálfari í sex ár en gengið í keppninni var slæmt og var hann því látinn fara.
Talið er að Zidane vilji taka við félagsliði frekar en landsliði en hann hefur áður hafnað boðum frá bæði Brasilíu og Bandaríkjunum.