Klopp tilkynnti óvænt að hann væri frá förum eftir níu farsæl ár, þar sem hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna.
„Einstakur einstaklingur stígur frá borði í sumar. Hann lyfti Liverpool úr meðalmennsku í hæstu hæðir. Ferðalagið eins og hann sagði frá fyrsta degi er mikilvægara en brotthvarfið. Ég er vissulega í áfalli en þessi tilkynning er í samræmi við Jurgen Klopp,“ skrifar Hörður á Facebook-síðu sína.
„Ég var of ungur þegar Bill Shankly réð ríkjum en eins og ég hef sagt áður þá er hann endurborinn Shankly. Þegar Klopp kom til Liverpool þá tók Anfield 45 þús . Eftir nokkra daga þá mun sögufrægi leikvangurinn taka 61 þúsund áhorfendur. Ekkert af þessu hefði verið mögulegt án hans.“
Þrátt fyrir miklar hræringar á leikmannahópi Liverpool í sumar hefur gengið verið frábært á þessari leiktíð og er liðið á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.
„Liverpool er að berjast á mörgum vígstöðvum á þessu tímabili sem er með ólíkindum miðað við breytingarnar í sumar. Það er ein ástæða fyrir því , Jurgen Klopp. Ef einhvern tíma hefur verið ástæða að hirða tuttugasta titilinn í efstu deild á Englandi þá er það núna.
Takk fyrir allt minn ástkæri og nú eru það næstu mánuðir,“ skrifar Hörður Magnússon að endingu.