Sagnfræðingurinn og íþróttaáhugamaðurinn Stefán Pálsson var gestur Íþróttavikunnar sem kemur út á 433.is, Hringbraut.is og í Sjónvarp Símans alla föstudaga. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum.
Það er orðið ljóst að Liverpool og Chelsea mætast í úrslitaleik enska deildabikarsins í ár. Liðin mættust einnig 2022 en þá vann Liverpool í vítaspyrnukeppni eftir ansi tíðindalítinn leik.
„Hann verður alltaf betri en þessi leikur 2022. Ég náði honum á bar í Bretlandi. Þá var ég staddur í Cambridge á smekkfullum íþróttabar þar sem allir voru að horfa á rugby-landslið Ítalíu og Írlands sem var á undan,“ sagði Stefán.
„Svo kláraðist sá leikur og það var skipt yfir á Liverpool-Chelsea. Staðurinn tæmdist. Við fengum sæti á besta stað. Það var smá raunveruleikatékk. Það eru ekkert allir fótboltaáhugamenn,“ bætti hann við léttur.