Sagnfræðingurinn og íþróttaáhugamaðurinn Stefán Pálsson var gestur Íþróttavikunnar sem kemur út á 433.is, Hringbraut.is og í Sjónvarp Símans alla föstudaga. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum.
Það vakti athygli þegar Gylfi Þór Sigurðsson rifti samningi sínum við Lyngby á dögunum. Gylfi er meiddur og er í endurhæfingu. Lyngby vonast til þess að Gylfi mæti aftur til félagsins ef hann nær sér af meiðslunum.
Kappinn sneri aftur á knattspyrnuvöllinn síðasta haust eftir tveggja ára hlé. Hann hafði verið að finna taktinn þegar bakslag kom í endurhæfinguna.
Þetta var tekið fyrir í þættinum en Hrafnkell sér hann ekki snúa aftur til Lyngby.
„Ég sé það ekki gerast. Þetta er hálf gruggugt,“ sagði hann og hélt áfram.
„Ég vil bara sjá hann koma í Bestu deildina. Farðu í FH og spilaðu á grasi. Það væri bara geggjað.“
Stefán tók til máls.
„Þú getur alveg afsalað þér launum án þess að rifta samning, myndi maður halda.“
Ísland mætir Ísrael í mikilvægum leik í umspili um sæti á EM í mars og Úkraínu eða Bosníu í úrslitum um sæti á mótinu ef hann vinnst. Hrafnkell sér Gylfa ekki endilega spila þessa leiki.
„Eins og staðan er núna verður það bara erfitt. Hann er ekki að fara að spila neina leiki á næstunni. Að fá hann inn í tvo leiki á stuttum tíma, jú mögulega sem varamann.“
„Erum við ekki líka að sjá hann sem rulluspilara og reynslubolta í hópinn?“ skaut Helgi inn í áður en Hrafnkell tók til máls á ný.
„Hann mun vega þungt í hópnum og fáum hann kannski inn af bekknum í 20-30 mínútur. Það gæti gert mikið.“
Umræðan í heild er í spilaranum.