Mennirnir sem fundust látnir, David Harrington, Ricky Johnson og Clayton McGeeny, voru á aldrinum 36 til 38 ára og höfðu þeir komið saman á heimili fjórða vinarins, Jordan Willis, til að horfa á leik með Kansas City Chiefs í bandarísku NFL-deildinni í amerískum fótbolta.
Leikurinn sem um ræðir fór fram að kvöldi 7. janúar og skiluðu mennirnir sér ekki heim eftir leikinn. Var það ekki fyrr en 9. Janúar að áhyggjufull unnusta McGeeny hafði samband við lögreglu og bað hana að fara heim til Jordans að lík þeirra fundust. Voru þremenningarnir látnir úti í garði og virðast hafa frosið í hel.
Í fréttum bandarískra fjölmiðla kemur fram að aðstandendur mannanna hafi sett sig í samband við Jordan á mánudeginum og þriðjudeginum en hann engu svarað. Samt hafi hann verið heima hjá sér og bílar vina hans í innkeyrslunni fyrir utan húsið hans.
Lögregla knúði dyra á heimili Jordans eftir að mennirnir fundust látnir og er hann sagður hafa komið til dyra með rauðvínsglas í hönd – grunlaus um að vinir hans væru látnir. Hann hafi ekki kippt sér upp við það að bílarnir væru í innkeyrslunni enda alvanalegt að menn skilji ökutæki sín eftir ef þeir fá sér í glas yfir íþróttaleik.
Lögregla segir að Jordan liggi ekki undir grun um aðild að dauða vinanna en ýmsir, einna helst aðstandendur mannanna, hafa klórað sér í kollinum yfir því hvað varð til þess að þeir létust.
Caleb Alexander, læknir við Johns Hopkins-sjúkrahúsið, segir við New York Post að ýmislegt bendi til þess að mennirnir hafi tekið inn einhvers konar ópíóða eða önnur sterk lyf. Notkun slíkra lyfja geti verið varasöm og þá ekki síst þegar áfengi er einnig haft um hönd.
Lögregla telur sem fyrr segir útilokað að um morð hafi verið að ræða en um það eru ekki allir sammála. Aðstandendur eins mannanna segja að lögregla þurfi að skoða hvort Jordan, vísindamaður sem hefur starfað við rannsóknir á HIV-veirunni, hafi eitrað fyrir vinum sínum.
Lögregla bíður eftir því að fá niðurstöður úr krufningu og eiturefnarannsókn sem gerð var eftir að mennirnir fundust látnir.