Fyrr í mánuðinum sögðum við frá hinni bresku Annabel Fanwick Elliott, sem er pistlahöfundur hjá Telegraph. Elliott kom til Íslands sem ferðamaður árið 2018, heillaðist af landinu og vildi búa hér. Fjórum árum síðar þegar hún og unnusti hennar fengu tækifæri til að flytja til Íslands ákváðu þau að slá til enda hafði unnustinn fengið spennandi starf sem þyrluflugmaður hér á landi. Parið entist eitt ár hérlendis og í pistli sínum segir Elliott nánar frá því.
Sjá einnig: Fluttu til Íslands en entust bara í eitt ár: Þetta eru ástæður þess að þau gátu ekki meir
Grein Annabel má lesa í heild sinni á vef Telegraph en þrátt fyrir að hafa gefist upp á að búa hér mælir Elliott með heimsókn og telur einnig upp fimm hluti sem allir verða að gera ef þeir heimsækja Ísland.
Heimsókn í náttúrulaugar
„Bláa Lónið. Það ferðamannalegasta sem þú getur gert, en það er ástæða fyrir heimsókn, þessi hlýji, ljósblái jarðhiti er dásamlegur. Þú getur synt að bar í lóninu, fengið kísilleir til að bera á allan líkamann og margt fleira. Ef þú átt nóg af seðlum þá skaltu gista á Retreat-hótelinu,“ segir Elliott. Hún mælir einnig með að heimsækja Sky Lagoon, helst að kvöldi til, og böðunum í Hvammsvík sem eru með útsýni yfir hafið.
„Eitt best geymda leyndarmál Íslands, sem við vissum ekki einu sinni af fyrr en stuttu áður en við fluttum frá Íslandi, er litla eyjan Heimaey sem er hluti af Vestmannaeyjum og er í aðeins 45 mínútna fjarlægð með ferju frá meginlandinu,“ segir Elliott.
„Heimaey er heimkynni stærstu lundabyggðar heims og fyrsta griðasvæði hvíthvala, svo dýralífsunnendur eiga eftir að verða hæstánægðir með heimsóknina. Hjá Glamping & Camping getur þú sofið í skálum rétt við ströndina en skálarnir eru í stíl Hringadróttinssögu.“
Eins og áður sagði starfaði unnusti Elliott sem þyrluflugmaður hérlendis og segir hún hann hafa flogið með fullt af ríkum viðskiptavinum sem hafi reglulega ferðast með þyrlum. „Viðskiptavinirnir sögðu allir að Ísland væri magnaðasta land sem þeir hefðu flogið yfir, og þyrluflug er besta leiðin til að sjá sem mest af landinu og frá einstöku sjónarhorni og það á einum degi.“
Elliott mælir með ferðum franska ljósmyndarans Kévin Pagès. „Ljósmyndaáhugafólk í leit að fallegum myndum finnur ekki betri stað en Ísland, landi eldfjalla, jökla, fossa og hvera.“
Elliott bendir á að margir af áhugaverðustu stöðum landsins séu á Suðurlandi, þar á meðal Seljalandsfoss, Skógafoss, íshellar við Kötlu og svört sandströnd við Vík.