Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og segir að þau flugfélög sem virði lögin að vettugi séu Neos, Austrian Airlines, Atlantic Airways, Lufthansa,
Liberia Express, Finnair, Eurowing, Edelweiss, Jet2.com og Air Baltic.
Haft er eftir Úlfari Lúðvíkssyni, lögreglustjóra á Suðurnesjum, að það liggi í augum uppi að lögreglan geti ekki framkvæmt lögbundna greiningu á farþegaupplýsingum þegar hún fær þessar upplýsingar ekki.
„Eftirlit með farþegum þessara flugvéla verður í skötulíki og hending ein ræður því hvort brotamenn séu stöðvaðir á landamærum þegar kerfisbundið landamæraeftirlit er ekki til staðar eins og á ytri landamærum þar sem allir farþegar þurfa að framvísa vegabréfum. Það sem er verra er að svona hefur ástandið verið mjög, mjög lengi án eðlilegra viðbragða af hálfu íslenskra stjórnvalda. Ég hef sagt að ytri landamærin leki og þá sérstaklega niður við Miðjarðarhaf, en í reynd er óþolandi að einstaka flugfélög komist upp með þetta á meðan önnur flugfélög standa vel að þessari upplýsingagjöf, þ.m.t. íslensku flugfélögin tvö,“ er haft eftir honum.
Samkvæmt lögum er hægt að svipta flugfélög lendingarleyfi ef þau afhenda ekki þessa lista en stjórnvöld hafa ekki gripið til neinna aðgerða að sögn Úlfars. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið að verið sé að skoða málið í ráðuneyti hans og að kallað hafi verið eftir upplýsingum um stöðu vandans. Sagðist hann meðvitaður um hann.