Eftir því sem fram kemur í nýlegri skýrslu Oxfam-samtakanna þá hafa hinir ofurríku orðið enn ríkari síðan 2020 á sama tíma og fátækustu fimm milljarðar jarðarbúa eiga fullt í fangi með að hafa í sig og á.
Ríkasti maður heims er Elon Musk, eigandi samfélagsmiðilsins X, Tesla og SpaceX. Í öðru sæti er Jeff Bezoz, stofnandi netverslunarrisans Amazon. Í þriðja sæti er Bernard Arnault, forstjóri Louis Vuitton. Þar á eftir kemur Bill Gates, stofnandi Microsoft og þar á eftir Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook.
En konu er ekki að finna fyrr en í þrettánda sæti listans og er hún um leið ríkasta kona heims. Þetta er hin franska Francoise Bettencourt Meyers. Hún er barnabarn Eugéne Schueller, stofnanda L‘Oréal, og á í dag þriðjung fyrirtækisins sem er stærsta snyrtivörufyrirtæki heims.
Hún varð á síðasta ári fyrsta konan til að eiga auðæfi upp á meira en 100 milljarða dollara. Auður hennar hefur þó skroppið aðeins saman síðan og er nú metinn á 97,8 milljarða dollara.
En þrátt fyrir að hún sé ríkasta kona heims, þá liggja upplýsingar um hana ekki á lausu. Hún er sögð gæta vel að einkalífi sínu og halda því fjarri sviðsljósinu. BBC segir þó að hún sé þekkt fyrir að spila á píanó í margar klukkustundir daglega. Hún hefur einnig skrifað tvær bækur um biblíuna og gríska guði. Hún gaf 230 milljónir dollara til endurbyggingar Notre Dame kirkjunnar í París sem skemmdist mikið í eldsvoða fyrir nokkrum árum.
Þrátt fyrir að auður hennar hafi skroppið aðeins saman frá því er best lét þá er langt á milli hennar og næstríkustu konunnar. Sú heitir Alice Walton og er erfingi að bandaríska Walmart-veldinu. Hún er í nítjánda sæti listans með auð upp á 71,2 milljarða dollara.
Þriðja ríkasta konan er í tuttugasta sæti listans en það er Julia Flesher Koch, sem, ásamt börnum sínum, erfði eiginmann sinn David Koch.