Elissa Hillier, 32 ára, og eiginkona hennar, hin 35 ára Kaylee, búa í Manchester á Englandi. Í samtali við Independent skýrðu þær frá þessu og sögðu að læknirinn hafi einnig spurt þær hvort þær vissu að til að búa til barn þyrftu þær að fá „sæði úr manni“.
Þetta gerðist í febrúar á síðasta ári. Sögðu þær að læknirinn hafi ekki vitað hvert ferlið væri fyrir þær til að geta eignast barn og hafi ráðleggingar hans hrætt þær, valdið vonbrigðum og komið þeim í uppnám.
Í kjölfarið leituðu þær til sæðisbanka í Noregi og Englandi og hafa nú farið þrisvar sinnum í tæknifrjóvgun en þær hafa allar misheppnast.
„Þegar við fórum frá lækninum, sátum við bara þöglar í bílnum og hugsuðum bara: „Gerðist þetta í alvöru?““
Þær segja að læknirinn, sem er karlmaður, hafi spurt þær: „Þið vitið að þið þurfið karlmann til að eignast barn?“ og „Þið vitið að þið þurfið sæði úr karlmanni?“
„Síðan starði hann bara á okkur í smá stund og sagði: „Af hverju farið þið ekki bara út og finnið mann til að sofa hjá?“ sagði Elissa.
Hann bauð þeim síðan að setja þær á biðlista hjá breska heilbrigðiskerfinu, NHS,, eftir að komast í tæknifrjóvgun en það hefði þýtt þriggja ára bið fyrir þær.
Elissa sagði að læknirinn hafi ekki verið dónalegur eða illgjarn, hann hafi bara verið að reyna að skilja málið. „Hann stakk nokkrum sinnum upp á því „af hverju finnið þið ekki bara karlmann?“ og við sögðum honum að við vildum ekki að konan okkar færi að sofa hjá einhverjum öðrum.“
Þær segjast varla hafa trúað þessu og hafi velt fyrir sér hvort þær væru í falinni myndavél. „Eru gagnkynhneigð pör spurð hvort þau viti að þau þurfi sæði úr karlmanni,“ sagði Kaylee.