Sigurður G Guðjónsson hæstaréttarlögmaður átti ekki von á því að leggjast í lestur bæklinga um kransæðasjúkdóma „en svona er lífið, kemur sífellt á óvart,“ segir hann.
Sigurður upplifði fyrir örfáum dögum að kransæðasjúkdómar gera ekki boð á undan sér. Hann var nýstiginn upp á hlaupabretti þegar hann fann óvenjulegan og þungan verk:
„Ég var bara rétt að byrja, búnar sirka tvær mínútur. Þetta var bara þungur verkur sem leiddi út í hönd. Ég hef aldrei fengið svona verk áður.“ – Sigurður brást skjótt við og var kominn upp á bráðadeild eftir um 20 til 30 mínútur. Eftir þessa reynslu vill hann koma því sterklega á framfæri að taka verður merki á borð við þessi mjög alvarlega:
„Þetta getur skaddað hjartað. Þess vegna skiptir svo miklu máli að taka alltaf alvarlega ef þú færð þungan brjóstverk sem leiðir út í hönd, eins og ég fékk,“ segir hann og lýkur lofsorði á starfsfólk Landspítalans:
„Kransæðastífla er þess eðlis að hún virðist geta orðið að raunveruleik án mikils fyrirvara. Eins og reyndin var hjá mér. Allt í einu þungur brjóstverkur, andstuttur eftir tvær þrjár mínútur á hlaupabretti á laugardaginn síðdegis. Þessi einkenni kalla á heimsókn til læknis strax og ég fór á bráðadeild þar sem fyrirbyggjandi ráðstafanir voru gerðar af fólki sem er að drukkna í vinnuálagi. Tæpum sólarhring síðar var búið að hreinsa og fóðra stíflaða kansæð á hjartadeild Landspítalans. Fumlaus vinna fimm kvenna undir stjórn Ingibjargar J. Guðmundsdóttur.“
Sigurður er raunar þekktur fyrir gott líkamlegt atgervi og er bæði hjólreiðakappi og hlaupagarpur. „Þetta getur verið ættgengt. En ég er í fínu formi, það vantar ekkert upp á það. Ég hef tvisvar hjólað hringinn í kringum Ísland og hjóla að meðaltali svona 5.000 kílómetra á árinu.“
Sigurður þarf að taka því rólega á næstunni og hvíla bæði hlaupabrettið og hjólið. „Núna er maður offíselt orðinn kransæðasjúklingur. Að vera vera eða vera ekki,“ segir hann og hlær. Aðspurður um hvernig sú tilhugsun venjist, segir hann:
„Hún bara verður að gera það. Þetta er ekki svo alvarlegt, ég þarf að taka fullt af töflum, en æðin er fóðruð. Þetta er eitthvað sem fleiri þúsund manns hafa gengið í gegnum. Aðalatriðið er að koma sér fljótt undir læknishendur ef maður finnur fyrir einkennum á borð við þau sem ég fann fyrir.“
Hann býst við því að geta aftur farið að hjóla og hlaupa í apríl en í bili þarf hann að taka því rólega. „Það var sett net yfir æðarnar og netið má ekki fara á flakk. Þannig að ég þarf að bíða með alla áreynslu,“ segir hann. Hann segist bara að öðru leyti vera hinn hressasti og er býsna ánægður sem starfsfólk bráðadeildarinnar sem hann telur vinna frábær verk undir gífurlegu álagi..
Hér gefur að líta aðgengilegan bækling um einkenni kransæðastíflu. – Þar segir meðal annars að fyrstu einkenni skipti höfuðmáli.