fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Lýsir sárri æsku í bréfi til Alþingis – „Var ég svipt heilögum mannréttindum ósjálfbjarga barns“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 23. janúar 2024 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrr í dag var birt á vef Alþingis umsögn Sigrúnar Magnúsdóttur um frumvarp um almennar sanngirnisbætur sem nú er til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd þingsins. Þegar hún var ungabarn var Sigrún vistuð á einum af þeim vöggustofum sem starfræktar voru í Reykjavík fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Eins og hefur komið fram voru börn á vöggustofunum vanrækt og hefur vistin þar haft skaðleg áhrif á þá einstaklinga sem þar voru vistaðir.

Sjá einnig: Vöggustofumálið: Það var bannað að snerta börnin og þeim var ekki sýnd nein hlýja

Í umsögn sinni rifjar Sigrún upp vist sína á vöggustofu Thorvaldsenfélagsins. Þótt meira en hálf öld sé liðin er ljóst að vistin hefur markað Sigrúnu fyrir lífstíð og lýsingar hennar á æsku sinni eru á köflum átakanlegar.

Sigrún segir að hún hafi verið vistuð á vöggustofunni þegar hún var 10 daga gömul og dvalið þar á annað ár. Hún biður alþingismenn að skoða frumvarpið út frá reynslu hennar og annarra sem vistuð voru á vöggustofum:

„Því biðla ég til ykkar að horfa á málið út frá augum okkar sem byrjuðum fyrstu mánuði og ár lífsins nánast óafskipt (þó svo að lágmarks grunnþörfum hafi verið sinnt) í kuldalegu og sterílu umhverfi á vöggustofum landsins.“

Með athugasemdinni birtir Sigrún bréf sem hún hafði meðferðis á fundi um vöggustofurnar í Ráðherrabústaðnum sumarið 2023. Sá fundur segir Sigrún að hafi verið haldinn að beiðni Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Sigrún segist hafa mætt á fundinn ásamt fleiri einstaklingum sem vistaðir voru á vöggustofum en hópurinn hafi starfað saman í sérstakri nefnd. Þau hafi mætt á fundinn m.a. til að hafa áhrif á umræðu um sanngirnisbætur. Hún hafi hins vegar aðeins fengið 3 mínútur til að lesa úr bréfinu á fundinum og þar sem hún hafi ekki náð að lesa það allt hafi hún afhent lögfræðingi úr forsætisráðuneytinu bréfið.

Nefnd þolenda eingöngu til skrauts

Í athugasemdinni segir Sigrún að litið hafi verið framhjá vinnu þeirrar nefndar þolenda sem hún starfaði í:

„Niðustaða okkar í nefndinni sem ég nefni hér að ofan er að okkar vinna sé til einskis höfð og lítið sem ekkert tillit sé tekið til þess hve erfið þessi vinna var okkur, að rýna í mál sem hefur alla tíð legið þungt í hugum okkar og hjörtum. Okkar upplifun er sú að vinna okkar í kringum málið hafi einungis verið til skrauts svo að hægt sé að segja frá því að nefnd þolenda hafi komið að málinu.“

Athugasemdinni lýkur á bréfinu sem Sigrún fékk svo skamman tíma til að lesa úr á fundinum síðastliðið sumar en eins og áður segir virðist ljóst að vöggustofuvistin hvílir enn þungt á henni og lýsingarnar eru á köflum átakanlegar:

„Einmitt þegar ég var í mestri þörf fyrir náið og einlægt öryggissamband, mikla hlýju, djúp grundvallartengsl og óskilyrta ást var ég svipt heilögum mannréttindum ósjálfbjarga barns.“

„Ég fór á mis við eina tímann, sem var í boði, til að læra að treysta og til að læra að taka á móti og gefa tilfinningar. Ég fór á mis við þá mikilvægu tengslamyndun og örvun sem börn þurfa á að halda frá fæðingu. Tengslamyndun og örvun sem er nauðsynleg fyrstu tvö árin í lífi barns.“

Í bréfinu segir Sigrún frá því að hún hafi skömmu áður en hún fundurinn var haldinn, síðastliðið sumar, haldið á 4 mánaða gömlum dóttursyni sínum. Hún hafi fengið tár í augun og fyllst þakklæti þegar litli drengurinn brosti og hjalaði:

„En ég hugsaði líka um allt sem ég fór á mis við. Mér var hugsað til þess hvernig ég, lítil stúlka á þessum aldri, fór á mis við sálræna djúpnæringu, atlæti, ást og kærleika.“

Sigrún minnir á hversu mikilvægir fyrstu mánuðirnir í lífi hvers barns eru:

„Í dag vitum við öll hvað fyrstu mánuðirnir í lífi ungabarns eru mikilvægir og að mikilvægast af öllu er óskilyrtur kærleikur og meiri kærleikur. Lítið ungabarn er nánast í gjörgæslu foreldra sinna, ekki síst móður sinnar, með sína nánd, mildi, ást og allt litróf tengslamyndunnar fyrstu 2 árin.“

Lág upphæð viðhaldi niðurlægingunni

Sigrún segir í bréfinu að skaði frumbernskunnar verði ekki bættur til fulls en mögulegt sé að milda sárin með því að mæta skilningi og fá hjálp. Þar á meðal að yfirvöld viðurkenni að hún og önnur sem vistuð voru á vöggustofum hafi neyðst til að horfa á veggi í stað þess að horfa í kærleiksrík augu mæðra sinna:

„Allt mál okkar snýst um lífsfjandsamlegar afleiðingar tengslarofs og sinnuleysis á mikilvægasta mótunarskeiði okkar. Engin aðför að mannlegu lífi, öryggi, grundvallarþroska, grundvallartrausti og reisn er eins afdrifarík eins og aðför að mikilvægasta mótunarskeiði lífsins. Afleiðingarnar verða yfirleitt miklar andlegar kvalir, stundum niðurrífandi lífsstíll, jaðarsetning, brotin sjálfsmynd og jafnvel sjálfshatur.“

Sigrún bendir á að þetta hafi áhrif á félagsleg tengsl og fjölskyldulíf og erfist milli kynslóða. Um hafi verið að ræða aðför að þolendum og í raun afkomendum þeirra líka og þess vegna eigi þeir að njóta vafans. Sé upphæð sanngirnisbóta lág viðhaldi það niðurlægingunni sem þolendur í vöggustofumálinu hafi orðið fyrir. Lágmarksupphæð bóta eigi því að nema einum góðum árslaunum, 12 milljónum króna. Með því væri sýnt í verki að hugur fylgdi máli.

Samkvæmt frumvarpinu geta þau krafist bóta sem hafa orðið fyrir varanlegum skaða, sem ekki fæst bættur á annan hátt, vegna illrar meðferðar eða ofbeldis sem viðkomandi hafa orðið fyrir vegna háttsemi opinberra aðila hjá stofnunum ríkisins eða sveitarfélaga eða af hálfu einkaaðila á grundvelli samnings við opinberan aðila eða samkvæmt opinberu leyfi.

Samkvæmt frumvarpinu yrði hámarksupphæð sanngirnisbóta 5 milljónir króna.

Athugasemd Sigrúnar við frumvarpið er hægt að lesa hér í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Kiðjabergs- og Naustahverfismálin vekja furðu því meintir morðingjarnir eru ekki taldir sekir um manndráp – Jón Steinar útskýrir hvers vegna

Kiðjabergs- og Naustahverfismálin vekja furðu því meintir morðingjarnir eru ekki taldir sekir um manndráp – Jón Steinar útskýrir hvers vegna
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Íslensk vötn ekki eins hrein og við hreykjum okkur af – Hættuleg eilífðarefni yfir mörkum í öllum sýnum

Íslensk vötn ekki eins hrein og við hreykjum okkur af – Hættuleg eilífðarefni yfir mörkum í öllum sýnum
Fréttir
Í gær

Nafntogaðir einstaklingar rökræða neikvæðan dóm um tónleika Bríetar – „Það getur ekki alltaf allt verið gott“

Nafntogaðir einstaklingar rökræða neikvæðan dóm um tónleika Bríetar – „Það getur ekki alltaf allt verið gott“
Fréttir
Í gær

Ef málið væri ekki svona alvarlegt ættu viðbrögð SVEIT heima í áramótaskaupinu

Ef málið væri ekki svona alvarlegt ættu viðbrögð SVEIT heima í áramótaskaupinu
Fréttir
Í gær

Verslunarstjóri ákærður fyrir nauðgun á fötluðum undirmanni sínum og tveimur andlega fötluðum ungmennum

Verslunarstjóri ákærður fyrir nauðgun á fötluðum undirmanni sínum og tveimur andlega fötluðum ungmennum
Fréttir
Í gær

Íslenski morðinginn hlaut 24 ára fangelsisdóm í barnaníðsmáli

Íslenski morðinginn hlaut 24 ára fangelsisdóm í barnaníðsmáli
Fréttir
Í gær

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“
Fréttir
Í gær

Fimmtungur veitingastaða sem Efling sendi bréf hafa sagt sig úr SVEIT

Fimmtungur veitingastaða sem Efling sendi bréf hafa sagt sig úr SVEIT