Dane Rashford, bróðir Marcus Rashford er laus allra mála í Bandaríkjunum eftir að hafa verið ákærður um heimilisofbeldi þar í landi.
Dane var í Miami í október og var sakaður um að hafa ráðist á unnustu sína þar í landi.
Var Dane sagður hafa misst stjórn á sér þegar hann komst í síma hennar og sá skilaboð frá leikmanni í ensku úrvalsdeildinni sem hún var að spjalla við.
Dane er 31 árs gamall og er umboðsmaður, hann sér meðal annars um málin fyrir Rashford.
Hann hafnaði sök í málinu og hefur lögreglan í Miami fellt málið niður og segir það hafa verið byggt á misskilningi.
„Við viljum koma því á framfæri að málið var fellt niður mjög fljótt, Dane kom aldrei fyrir dóm. Hann og unnusta hans eru ánægð með að þessi misskilningur sé að baki,“ segir lögmaður Dane.