Ozempic var þróað til að meðhöndla sykursýki en hefur verið vinsælt sem megrunarlyf og eru fjölmargar Hollywood-stjörnur sagðar hafa notað það. Sumar hafa viðurkennt það, eins og sjónvarpsstjörnurnar Sharon Osbourne og Oprah Winfrey.
Dubrow er annar lýtalæknanna í vinsælu raunveruleikaþáttunum Botched á sjónvarpsstöðinni E! Hann er giftur raunveruleikastjörnunni Heather Dubrow úr þáttunum Real Housewives of Orange County.
Sjá einnig: Brotnaði niður í fyrsta skipti í sögu þáttanna
Þrátt fyrir að lyfið sé umdeilt lýsir Dubrow því sem „töfralyfi“ en tekur fram að það sé ekki áhættulaust. Hann ákvað að prófa það en hætti vegna aukaverkana.
„Ég prófaði það. Mér fannst það frábært, en aukakílóin sem ég þurfti að missa voru ekki mörg,“ sagði Dubrow, 65 ára, í samtali við Page Six.
„En ég vildi prófa þetta þar sem svo mikið af sjúklingum mínum eru á lyfinu og mig langaði að sjá hvað gerist þegar þú ert ekki með sykursýki og þarft aðeins að missa um 4,5 til 7 kíló.“
Lýtalæknirinn fann fyrir aukaverkunum eins og vægri ógleði og svo missti hann allan áhuga á mat.
„Ég hugsaði: Veistu hvað, ég vil fá matarlystina aftur. Hátíðirnar eru að koma og ég vil njóta mín,“ sagði hann um hvers vegna hann hafi ákveðið að hætta á lyfinu. „Mig langaði að geta borðað aftur.“
Fjölmiðlar vestanhafs hafa greint frá öðrum aukaverkunum eins og það getur valdið niðurgang og uppköstum.
Þrátt fyrir aukaverkanirnar segist Dubrow vera mikill aðdáandi lyfsins.
„Mér finnst þetta lyf vera kraftaverk. Stærsta bylting sem hefur orðið í læknisfræðinni.“
Dubrow varar fólk við að drekka á lyfinu. „Þú getur alls ekki drukkið áfengi á meðan þú ert á því,“ sagði hann og bætti við að áfengisneysla samhliða notkun Ozempic auki líkurnar á brisbólgu.
„Þú þarft að fara mjög varlega með áfengi því það er fólk inni á spítala núna með brisbólgu vegna þessa.“