Ofurtölvan geðþekka stokkar spilin eftir hverja umferð í ensku úrvalsdeildinni og nýjasta spá hennar er athyglisverð.
Manchester City er spáð Englandsmeistaratitlinum þrátt fyrir að vera 5 stigum á eftir toppliði Liverpool sem stendur.
Lærisveinum Jurgen Klopp er spáð öðru sæti, Arsenal því þriðja og þá er því spáð að Aston Villa hreppi fjórða sætið að þessu sinni eftir frábært tímabil sitt.
Nýliðarnir Luton, Burnley og Sheffield United falla allir að mati Ofurtölvunnar.
Þá vekur athygli að Manchester United er spáð ellefta sæti eftir ansi slakt tímabil sitt til þessa. Yrði það versti árangur liðsins í sögu úrvalsdeildarinnar ef af verður.