Þetta kemur fram í viðtali við hann í Dagmálum Morgunblaðsins í dag sögn Morgunblaðsins. Í viðtalinu segir hann að mesta hættan sé inni í bænum því manngert jarðlag bregðist öðruvísi við en annað yfirborð.
„Aðalvandamálið í Grindavík núna er að hraunin, sem Grindavík er byggð á, eru búin að opna sig og þar eru gapandi gímöld. En manngerða lagið sem liggur ofan á svarar ekki eins. Við fáum ekki sprunguna alla leið til yfirborðs. Hún er þarna undir og þá tekur tíma fyrir manngerða lagið að sallast ofan í sprunguna og þá kemur holrúm í ljós. Það gerir svæðið mjög hættulegt,“ segir hann.
Hann segir að miðja eldstöðvakerfisins sé undir Eldvörpum og bíði hann eftir að þau fari að sýna aukna virkni, því það muni slakna á kerfinu við Grindavík þegar spennulosun verði við Eldvörp.
Hann segir einnig ljóst að Krýsuvíkurkerfið hafi að undanförnu sýnt merki þess að það sé að fara í gang. Úr því kerfi runnu einu hraunin sem hafa nálgast höfuðborgarsvæðið á sögulegum tíma. Þetta hraun nær inn í úthverfi höfuðborgarsvæðisins og sprungur samhliða kvikuinnskotum gætu valdið tjóni á innviðum að sögn Ármanns.
Hann segir að ef það gýs norðarlega í kerfinu geti hraun runnið í átt að byggð í Hafnarfirði og Garðabæ. Landris og landsig hafi mælst í Móhálsadal og gefi það til kynna að kvika sé að komast inn í kerfið.