Tusk vildi sýna að ríkisstjórnarskiptin í Póllandi hafi ekki áhrif á stefnuna varðandi málefni Úkraínu.
Að fundinum með Zelenskyy loknum sagði hann að Pólverjar „muni gera allt til að auka líkurnar á úkraínskum sigri í þessu stríði“.
Hann sagði einnig að þjóðirnar hafi komist að „sameiginlegum skilningi“ varðandi mótmæli pólskra flutningabílstjóra.
Pólverjar urðu ein mikilvægasta bandalagsþjóð Úkraínu þegar Rússar réðust inn í landið fyrir tæpum tveimur árum. Samband ríkjanna hefur þó farið versnandi síðustu mánuði, meðal annars vegna aðgerða pólskra flutningabílstjóra sem hafa lokað landamærum ríkjanna.