Kyrylo Budanov, yfirmaður leyniþjónustu úkraínska hersins, ræddi nýlega við Financial Times og sáði þá efasemdum um dauða Prigozhin.
„Wagnerhópurinn er enn til. Og nú, þegar við erum að ræða um Prigozhin, vil ég ekki draga ályktanir í fljótfærni,“ sagði hann og vísaði þar til yfirlýsinga rússneskra stjórnvalda um að hann hafi látist í flugslysi þann 23. ágúst 2023 þegar einkaþota hans hrapaði norðvestan við Moskvu.
„Ég segi hvorki að hann sé dáinn eða ekki dáinn. Ég segi bara að það er ekki ein einasta sönnun fyrir því að hann sé dáinn,“ sagði Budanov.
Rússnesk yfirvöld hafa ekki lagt fram neinar ljósmyndir eða DNA-sannanir fyrir því að Prigozhin hafi látist í flugslysinu.
Wall Street Journal segir að ráðamenn í Kreml hafi gefið fyrirskipun um að sprengju skyldi komið fyrir um borð í flugvélinni. Þetta var gert í kjölfar dramatískra atburða sem náðu hámarki í júní þegar Prigozhin var í fararbroddi fyrir vopnaðri uppreisn. Uppreisninni lauk þegar Prigozhin og næstráðendur hans sömdu við Pútín og stjórn hans um að þeir yrðu ekki sóttir til saka og gætu farið frjálsir ferða sinna. Þegar fréttist af þessum samningi stóð Vladímír Pútín, forseti, eftir sem veikburða leiðtogi.
En þegar vélin hrapaði nokkrum vikum síðar náðu Pútín og hans menn tökum á Wagnerhópnum.