Leikarinn, leikstjórinn og varaþingmaðurinn Viðar Eggertsson á sér langa og farsæla sögu úr heimi leiklistarinnar á Íslandi, og það þrátt fyrir eina erfiðustu æsku sem hægt er að ímynda sér. Undanfarin ár hefur Viðar vakið athygli sem eitt af vöggustofubörnum Reykjavíkur, börn sem fengu hvorki ást né hlýju og máttu ekki svo mikið sem ná augnsambandi við foreldra sína sem fengu aðeins að horfa á þau eins og dýr í dýragarði – í gegnum gler. Þetta tíðkaðist á árunum 1949-1973 og voru það gjarnan foreldrar, einkum einstæðar mæður sem þurftu að nýta sér þetta úrræði, án þess að átta sig á þeim afleiðingum sem það kæmi til með að hafa á börn þeirra.
Viðar er nýjasti gestur Mumma í Kalda pottinum þar sem fjallar um Vöggustofumálið og hvað hann græddi á því að hafa náð að heilla starfsstúlkur á heimilinu því þar með fékk hann hlýju sem tvíburasystir hans fékk ekki.
Móðir Viðars var einstæð og taldi sig eiga von á einu barni, sem út af fyrir sig ætti eftir að reynast þrautinni þyngra að sjá fyrir. Það var nokkuð áfall þegar börnin reyndust tvö, Viðar og systir hans. Vöggustofan var tandurhreint og móðir Viðar fullvissuð um að þetta væri fínasti staður fyrir börnin að dvelja.
Hins vegar var vöggustofan, eins og flestir vita í dag, rekin með þeirri hugmyndafræði að það væri skaðlegt fyrir börnin að hitta foreldra sína og skaðlegt að sama bragði að börnin mynduðu tengsl við nokkra fullorðna manneskju. 17 daga gömul fóru tvíburasystkinin inn á vöggustofuna og áttu ekki eftir að hitta móður sína aftur fyrr en 2,5 árum síðar.
Þarna inni var allt skjannahvítt, sótthreinsað, litlaust og engin leikföng. Börnunum var sinnt eftir stífri áætlun af starfsstúlkum sem væru klæddar upp eins og læknar, og máttu ekki mynda augnsamband við börnin. Aðeins átti að sinna líkamlegum grunnþörfum, en hvorki félagslegum né tilfinningalegum.
Viðar bendir á þá staðreynd að þarna hafi verið á bilinu 25-30 börn á hverjum tíma. Aðeins var þó talin þörf á einum starfsmanni á nóttunni.
„Svo spyr maður sig, af hverju þurfti bara einn starfsmann á nóttunni? Allir sem hafa eignast börn vita að börn taka tennur, börn fá magaveiki, börn grenja, börn eru óróleg og finna til, fá sjúkdóma og allskonar. Börn gráta og vakna á nóttunni. En það var allt rólegt á nóttunni á vöggustofunni.“
Viðar segist nokkuð viss um að börnum hafi verið gefið eitthvað til að halda þeim rólegum, en þar að auki hafi þau lært snemma að það þýddi lítið að gráta.
„Þegar börnin koma þarna inn – eru tekin af mæðrum sínum sem fá að sjá þau í gegnum gler einu sinni í viku en ekki snerta þau. Þau gráta fyrst um sinn eins og þau eiga að sér – en þau lærðu mjög hratt að það svaraði enginn grátinum. Þau lærðu mjög fljótt að það þýddi ekkert að gráta. Þau lærðu mjög fljótt að þau skiptu engu máli. Það voru engin viðbrögð við tilfinningalegu uppnámi. Það er líka skýringin á því af hverju þau þagna.“
Viðar segir að hann hafi farið betur út úr vistinni en systir hans. Honum hafi tekist að heilla starfsmenn og var tekinn upp úr vöggunni og fékk þá snertingu og hlýju. Það fékk systir hans ekki. Þegar þau komu út af vöggustofunni kunni hvorugt þeirra að tala, þrátt fyrir að vera 2,5 árs. Þau höfðu heldur ekki myndað mótefni við neinum sjúkdómum eða öðrum. En Viðar hafði fengið smá hlýju og telur að það hafi orðið honum til lífs.
Þegar skýrsla var unnin um vöggustofuna óskaði Viðar eftir því að kannað yrði hvað varð um börnin og hvernig þeim hafi vegnað. Niðurstöður þeirrar könnunar voru þær að vöggustofu börn voru líklegri en aðrir jafnaldrar til að veikjast, til að láta lífið fyrir aldur fram, eða fara á örorku.
„Það hafa verið örlög þessara barna – þau eru ekki langlíf,“ segir Viðar. Þessi börn hafi átt erfitt uppdráttar. Þau voru svipt öllu því mikilvægasta á mikilvægum mótunartíma í frumbernsku. Þau lærðu ekki að tala, ekki að borða, ekki að leika sér, fengu hvorki að kanna né uppgötva umhverfið sitt. Þessu fylgja tilfinningaraskanir.
Viðar greinir líka frá því að Vöggustofan hafi í raun orðið eins og barnasjoppa fyrir fjölskyldur úr efri lögum samfélagsins. Þau hafi mætt á vöggustofurnar og nánast gátu valið sér þaðan barn. Á bak við börnin voru gjarnan mæður með lítið milli handanna, fullar örvæntingu og með bágar framtíðarhorfur. Þegar velstæð hjón sýndu barni þeirra áhuga reyndist gjarnan auðvelt að sannfæra þessa mæður að gefa frá sér barn sitt.
Þessi tími hafi einkennst af met fjölda í ættleiðingum á íslenskum börnum. Forstöðufólk vöggustofunnar hafi hvatt til ættleiðinga sem og hinar ýmsu nefndir og ráð, enda kostaði að koma börnum í fóstur og að reka vöggustofur. Það kostaði þó hið opinbera ekkert ef börnin voru ættleidd. Viðar segir að oft hafi hart verið gengið eftir mæðrum vöggustofubarna sem gjarnan létu undan á endanum.
„Þarna stendur fátæk móðir sem á barn á vöggustofunni og er að reyna að horfa á barnið sitt þarna í gegnum glerið. Við hliðina á henni stendur önnur kona sem er að leita sér að barni, og er að horfa á sama barnið. Þetta var staðan.“
Það sem verra var þá fylgdi börnunum skilaréttur svo í raun gátu þessar ríkari fjölskyldur tekið barn til reynslu með sér heim. Ef það hentaði ekki, þá var því bara skilað og annað barn tekið í þess stað.
„Það var skilaréttur á börnunum. Þau gátu skilað og prófað annað barn á heimilið.“
Viðar lýsir því hvað staða foreldra þessara barna var erfið. Þarna hafi þau jafnvel í lengri tíma ekki fengið að faðma börnin sín að sér. Aðeins fengið að horfa á þau í gegnum kuldalegt gler. Þá kemur til þeirra fólk sem er tilbúið að bjóða börnunum lífið sem þau gátu ekki sjálf veitt þeim. Hvernig áttu þau að neita?
Hlusta má á viðtalið við Viðar og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.
Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.
Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.