Þann 25. janúar verður þingfest fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra mál gegn konu sem starfaði sem hjúkrunarfræðingur á lyflækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Konan er ákærð fyrir þjófnað og brot í opinberu starfi.
Samkvæmt ákæru héraðssaksóknara er hún sökuð um þjófnað úr lyfjalager deildarinnar, nánar tiltekið á hún að hafa stolið 238 töflum af ávana- og fíknilyfjum. Hún er sögð hafa stolið 64 töflum af lyfinu Imovane, 42 töflum af Heminevrin, 19 töflum af Sobriol, 26 töflum af Stilnocht og 87 töflum af Parkódín.
Héraðssaksóknari krefst þess að konan verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Meint brot átttu sér stað á tímabilinu 30. nóvember til 28. desember árið 2022.