Maður sem stakk mann með hnífi á mótum Hringbrautar og Hofsvallagötu í Reykjavík á föstudagsnótt hefur verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. Frá þessu greindi Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við DV.
RÚV greindi frá málinu á laugardag og hefur þar eftir lögreglu að ekki sé talið að árásin tengist hópamyndun eða fyrri átökum. Tilefni árásarinnar var það að maðurinn var á gangi á miðri götu og par sem átti leið hjá gerði athugasemd við það háttalag þar sem það væri hættulegt. Maðurinn dró þá upp hníf og stakk karlmanninn í síðuna. Parið er á þrítugsaldri en árásarmaðurinn milli fertugs og fimmtugs.
Grímur staðfestir þessa lýsingu RÚV en bendir að rannsókn sé skammt komin. „Þetta virðist bara hafa verið eitthvert samtal, en í raun er bara ómögulegt um þetta að segja, málið er bara á þessu stigi núna, það eru bara örfáir dagar síðan við fengum það inn á okkar borð,“ segir hann.
Aðspurður segir Grímur að ástand árásarþolans sé stöðugt. „Ástand hans er stöðugt, held ég að ég megi segja, en þetta var mjög alvarleg atlaga.“