Nokkuð sérstakt mál er komið upp í Svíþjóð. Eigur 75 ára gamallar konu, sem síðar kom í ljós að hafði verið myrt, fundust ásamt blóðugum hníf. Þegar hringt var í Neyðarlínuna fengust svör sem komu viðkomandi algjörlega í opna skjöldu. Honum var sagt að leita á náðir leitarvélarinnar Google.
Aftonbladet greinir frá þessu.
Húsvörður á hjúkrunarheimili fann innkaupapoka, með ansi undarlegu innihaldi, í ruslatunnu í garði hjúrkunarheimilisins sem er staðsett í miðborg Stokkhólms.
Húsvörðurinn hringdi þegar í yfirmann á hjúkrunarheimilinu sem hélt út í garðinn.
Efst í pokanum voru það sem virtust vera karlmannsföt, peysa og gallabuxur með blóðblettum á. Undir því fannst handtaska, brotin gleraugu, blóðugt brot af leirtaui, blóðugir sokkar, kvenmannsskór, lyf í óopnuðum umbúðum, og blóðugur hnífur.
Yfirmaðurinn fékk það strax á tilfinninguna að eitthvað slæmt hefði gerst og hringdi í Neyðarlínuna en neyðarnúmerið í Svíþjóð er það sama og á Íslandi, 112.
Hann bar upp erindið við neyðarvörð og sagði að það væri nafn konu á umbúðunum sem innihéldu lyfin. Þá hafi neyðarvörðurinn sagt við sig að hann yrði að leita að nafni konunnar með aðstoð Google til að komast að því hvort hún byggi í nágrenninu og fara þá með lyfin til hennar, ef svo væri. Maðurinn sem hringdi varð að vonum ansi undrandi á þessum orðum neyðarvarðarins og hugsaði með sér að þetta ætti nú varla að vera í verkahring almennra borgara eins og hans.
Hann krafðist þess að lögreglan yrði send á staðinn og eftir nokkra stund komu lögreglumenn. Þeir fóru því næst heim til konunnar, sem bjó í fjölbýlishúsi, og fundu hana liggjandi í blóðpolli á stofugólfinu. Hún var látin.
Rannsókn lögreglunnar bar þó árangur og var 23 ára gamall maður ákærður fyrir morðið. Hann og konan þekktust ekki og hún virðist hafa orðið skotmark mannsins af einskæru handahófi. Maðurinn er sagður hafa komist inn til konunnar vegna þess að hurðin á íbúð hennar var ólæst. Hann stakk hana síðan með hníf úr eldhúsinu og sló hana í höfuðið með blómavasa.
Maðurinn sem hringdi á neyðarlínuna, þegar pokinn með innihaldinu undarlega fannst, er ánægður með að hafa hringt og krafist þess að lögreglan kæmi á staðinn. Hann segir að hefði hann ekki gert það gæti allt eins verið að konan lægi ennþá látin á stofugólfinu heima hjá sér. Það sé þó sorglegt að almennir borgarar þurfi að vera með slíkar kröfur.
Hlé var gert á réttarhöldum yfir hinum ákærða til að hægt væri að kanna nánar hvort hann væri sakhæfur vegna andlegra veikinda. Meðan hann var í haldi á geðsjúkrahúsi lést maðurinn hins vegar. Dánarsorsök hans hefur ekki verið gerð opinber en samkvæmt reglum sjúkrahússins á að fylgjast stöðugt með þeim sem eru í haldi, grunaðir um glæp.
Sjúkrahúsið hefur tilkynnt sjálft sig til þar til bærra yfirvalda og rannsókn mun fara fram á dauða mannsins.
Í ljósi andláts mannsins hafa allar ákærur á hendur honum verið felldar niður.