Starfsmaður verslunar í borginni Humble, sem er úthverfi Houston, í Texas var skotinn til bana um hádegisbilið síðastliðinn föstudag þegar hann elti tvo menn út úr versluninni sem höfðu stolið einum poka af kartöfluflögum.
Þjófarnir voru tveir en maðurinn elti þá á bifreið sinni.
Verslunin er einnig bensínstöð en hinn látni var 42 ára gamall.
Á upptökum úr eftirlitsmyndavélum má sjá mennina sem grunaðir eru um ódæðið koma dökkklæddir inn í verslunina. Starfsmaðurinn var þá að skúra gólfið í versluninni.
Mennirnir ráfuðu um verslunina þar til þeir komu að kartöfluflögunum en á upptökunum sést annar þeira stinga kartöfluflögupokanum inn á sig. Báðir mennirnir yfirgáfu að því loknu verslunina án þess að greiða fyrir flögurnar. Starfsmaðurinn virðist hafa séð til þeirra og ákvað að elta mennina á bíl sínum.
Hann komst þó ekki langt því mennirnir byrjuðu að skjóta á hann með þeim afleiðingum að hann lét lífið vegna skotsára.
Ljóst er að mennirnir skutu fjölda skota á hinn látna en bifreið hans var þakin kúlnagötum.
Mennirnir komust undan fótgangandi og eru enn ófundir. Lögreglunni hefur ekki tekist að bera kennsl á þá og hefur óskað eftir aðstoð almennings við það.
Talsmaður lögreglunnar segir að heiðvirður borgari sem hafi einungis verið að vinna vinnuna sína hafi glatað lífinu og um leið hafi mennirnir sem sviptu hann því eyðilagt sitt eigið líf.
New York Post greindi frá.