Jadon Sancho átti ágætis leik fyrir Borussia Dortmund í gær sem spilaði við Köln í efstu deild Þýskalands.
Sancho gekk í raðir Dortmund í þessum mánuði frá Manchester United og gerði lánssamning út þetta tímabil.
Englendingurinn þekkir vel til Dortmund en hann vakti verulega athygli þar áður en hann hélt aftur til heimalandsins þar sem hlutirnir gengu ekki upp.
Dortmund fékk vítaspyrnu á 58. mínútu í 4-0 sigri og grátbað Sancho liðsfélaga sinn Niclas Fullkrug um að fá að taka spyrnuna.
Fullkrug er markaskorari og elskar fátt meira en að setja boltann í netið og harðneitaði beiðni Sancho.
,,Láttu mig fá boltann, láttu mig fá boltann!“ á Sancho að hafa sagt við Fullkrug samkvæmt blaðamanninum Patrick Berger sem starfar fyrir Sky Sports.
Fullkrug hafði engan áhuga á því og skoraði úr spyrnunni til að koma gestunum í 2-0 í sannfærandi sigri.