Einnig er hægt að hlusta á Spotify eða hlaðvarpsþjónustu Google.
Í dag starfar Ragga við kennslu og sem forstöðumaður félagsmiðstöðvar auk þess að snúa skífum um helgar. Ragga hefur gengið í gegnum margar þolraunir í lífinu en í hennar huga er það ekki eitthvað sem heldur aftur af henni heldur eitthvað sem hún nýtir sér til góðs.
Þegar Ragga var barn var hún sett í fóstur til ömmu sinnar og afa. Nokkrum árum síðar fór hún til föður síns og fósturmóður, sem gekk henni í móðurstað og kallar Ragga hana mömmu. Bróðir hennar var settur annað í fóstur og eignaðist hún tvo yngri bræður, sem hún þekkti ekki. Það var því mjög skrýtin tilfinning að fá allt í einu skilaboð á samskiptaforritinu MSN, sem naut mikilla vinsælda upp úr aldamótum.
„Það var mjög súrrealískt móment þegar MSN var upp á sitt besta. Ég á bróðir sem er ári eldri en ég, Ævar. Hann hafði samband við mig á Messenger og sagði bara: „Hæ, ég er bróðir þinn.“
Hann hafði ég aldrei hitt og talað við, sem ég man eftir. Ég á myndir af okkur þegar við vorum eins og tveggja ára að leika. En ekkert sem ég man eftir. Það var mjög áhugaverð upplifun. Við hittumst síðan, fórum í bíó á Blade og bjuggum til þarna smá samband sem hélst í gegnum MSN og Facebook og eitthvað þannig. Það var mjög áhugaverð tilfinning, að vita allt í einu að maður eigi þarna bróður, svo á ég tvo aðra bræður.“
Ragga segir að í dag sé hún ekki í miklum samskiptum við þá. „Facebook er náttúrulega mjög öflugt tól í svona aðstæðum, ein og ein afmæliskveðja [fer á milli],“ segir hún.
„Það er áhugavert að vita að maður eigi í raun fjölskyldumeðlimi, systkini, annars staðar.“