Maðurinn, hinn 64 ára gamli Rod Maroney, hlaut alvarlega höfuðáverka þegar rafmagnshjóli var ekið á hann á talsverðum hraða í september á síðasta ári.
Rod var að ganga yfir léttlestarteina á hinni fjölförnu George Street í Sydney þegar hjólreiðamaðurinn kom aðvífandi og skall á honum.
Eins og myndin hér að ofan ber með sér hlaut Rod alvarlega höfuðáverka og var honum haldið sofandi í nokkrar vikur eftir slysið. Hann þurfti að gangast undir bráðaaðgerð á höfði og er enn að jafna sig eftir slysið.
News.com.au fjallar um málið og þá staðreynd að lögregla mætti í Airbnb-íbúð hjónanna skömmu eftir slysið þar sem hún skildi eftir sektarboð upp á um tíu þúsund krónur. Rod og eiginkona hans eru ósátt við tillitsleysi lögreglunnar enda erfitt að sjá hvernig Rod bar ábyrgð á slysinu.
Hjónin benda á að rafmagnshjól séu ekki leyfð í umræddri götu en samt hafi lögregla rökstutt sektina með þeim orðum að hann hafi ekki sýnt nægjanlega varúð og gengið í veg fyrir hjólreiðamanninn.
Eiginkona hans, Barbara, sem er lögmaður, ákvað að fara alla leið með málið og hefur sektin nú verið felld niður. Á meðan reynir Rod að ná fyrri styrk en það gengur hægt.
Eftir sjö vikna dvöl á sjúkrahúsi fékk Rod að fara heim til Bandaríkjanna í fylgd tveggja hjúkrunarfræðinga. Hann þjáist af minnisleysi eftir slysið, má ekki aka bíl og er þar að auki með takmarkaða sjón.