CNN skýrir frá þessu og segir að bréfið verði selt á uppboði hjá uppboðshúsinu Sotheby‘s í New York í næsta mánuði.
Bréfið var sent til William Blenkinsop Jr þann 2. maí 1840. Vitað er að hann var forstjóri járnsteypu fyrirtækis norðan við Lundúnir en annars er lítið sem ekkert vitað um hann.
Sendandinn póstlagði bréfið í Lundúnum og setti svokallað Penny Black frímerki á umslagið.
Innihald sendingarinnar glataðist en umslagið var notað aftur. Því var einfaldlega snúið við á rönguna og sent til annars Blenkinsop, líklega föður William Blenkisop Jr.
Upprunalegu stimplarnir eru enn á umslaginu innan- og utanverðu.
Penny Black, sem var fyrsta frímerkið, var ekki sett í umferð fyrr en 6. maí 1840 svo þessi notkun fjórum dögum áður hefur verið einhverskonar generalprufa.
Það var kennarinn Sir Rowland Hill sem fann frímerkið upp. Tilgangurinn var að einfalda bréfasendingar en á þessum tíma var það móttakandinn sem greiddi fyrir bréfið og var kostnaðurinn mjög falinn. Kerfið var flókið í framkvæmd og burðargjöldin ófyrirsjáanleg. Nýja fyrirkomulagið, frímerki, sló í gegn og einfaldaði bréfasendingar mjög.
Ef þú hefur áhuga á að eignast bréfið góða þá er eins gott að veskið þitt sé vel þykkt því reiknað er með að það seljist á sem nemur allt að 350 milljónum íslenskra króna.