Nýja lyfið notar árásartækni sem hefur aldrei áður sést hjá sýklalyfjum. Þessi aðferð gerir að verkum að ráðist er mjög markvisst á bakteríurnar.
Live Science hefur eftir Kenneth Bradley, einum þeirra sem bjuggu nýja lyfið til, að kosturinn við það sé að bakteríur hafi aldrei komist í kynni við það og geti því ekki notað þær varnaraðferðir, sem þær búa yfir, til að verjast lyfinu.
Bradley og samstarfsfólk hans skýrði frá nýja lyfinu í grein í vísindaritinu Nature í byrjun mánaðarins. Lyfið heitir Zosuarabalpin. Nú er verið að gera fyrstu tilraunirnar á fólki með því.
Paul Hergenrother, prófessor í efnafræði við University of Illinois, sagði að lyfið lofi mjög góðu. Hann kom ekki að þróun þess.
Sýklalyfjaónæmi er mikil ógn um allan heim því það gerir að verkum að ekki er hægt að drepa bakteríur sem ógna lífi og heilsu fólks.