Fyrrum markvörðurinn Paddy Kenny hefur komið fyrrum liðsfélaga sínum Joey Barton til varnar en mikill hiti hefur verið á þeim síðarnefnda undanfarið.
Barton kom sér síðast í fréttirnar í gær í kjölfar þess að sparkspekingurinn Eni Aluko tilkynnti að hún hefði flúið England vegna hans. Barton hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum undanfarið og hjólað í konur sem fjalla um karlafótbolta. Flestir eru sammála um að hann hafi gengið allt of langt í þessari „herferð“ sinni en hann sagði á dögunum að Aluko og kollegi hennar Lucy Ward væru „Fred og Rose West fótboltaumfjöllunnar.“ Fred og Rose West voru breskir raðmorðingjar.
Í kjölfar ummæla Barton hafa netverjar herjað á Aluko og aðrar konur í geiranum á samfélagsmiðlum. Segist hún nú óttast um öryggi sitt og er farin erlendis í bili.
„Ég ætla að vera hreinskilin og ég skal glöð viðurkenna að ég hef verið hrædd þessa vikuna,“ sagði Aluko á Instagram í fyrradag og hélt áfram.
„Ég fór ekki úr húsi á föstudag og nú er ég komin erlendis. Netníð hefur bein áhrif á öryggi þitt og hvernig þér líður í hinu raunverulega lífi. Ég vil að fólk átti sig á hvað haturðsorðræða er, hvernig áhrif kynþáttaníð og kynjamismunum hefur.“
Barton svaraði henni fullum hálsi.
„Ég beið eftir að þú spilaðir fórnarlambs-kortinu,“ skrifar hann á X (áður Twitter).
„Fyrirgefðu elskan en þú ert glötuð í fótboltaumfjöllun. Þú veist ekkert um karlafótbolta. Það eru allir að hlæja að þér, ekki bara ég.“
Talið er að bæði Aluko og Ward muni höfða mál gagnvart Barton.
Kenny kom honum hins vegar til varnar á samfélagsmiðlum í gær þar sem hann hermdi eftir Aluko. Hann er í fríi í Mexíkó en sagðist hafa flúið þangað út af áreiti á Instagram.
Myndband af þessu er hér að neðan.
I’ve had to get away to Mexico 😉🇲🇽 pic.twitter.com/SgKTdLU4Ig
— Paddy Kenny (@paddykenny17) January 17, 2024