Karlmaður með fíknisjúkdóm var dæmdur í 7 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir ítrekuð þjófnaðarbrot og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Eins þarf hann að bæta brotaþolum, þeim verslunum sem hann hnuplaði frá, tjón sitt að fullu.
Ákæruliðirnir voru fjölmargir og varða margir töluverðar fjárhæðir. Einkum beindust brotin að raftækjaversluninni ELKO, og útibúum hennar í Skeifunni og Skógarlind, með eftirfarandi hætti:
Elko var ekki eini þolandi þjófnaðarhrinu ákærða heldur stal hann ítrekað úr Krónunni og Hagkaup fyrir fleiri tugi þúsunda, stal vörum að andvirði 42 þúsund kr. úr IKEA, stal yfirhöfn úr North Face að andvirði 69.990 og vöru að andvirði 529.990 kr. úr tölvubúðinni Epli í Smáralind.
Maðurinn var samhliða ákærður fyrir ítrekuð umferðarlagabrot eftir að lögregla stóð hann í fjórgang að því að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ljóst er að fíknisjúkdómur hafði með brot ákærða að gera og tók dómari í málinu tillit til þess. Ákærði játaði sök greiðlega og lýsti yfir eftirsjá og iðrun. Honum langi ekkert frekar en að komast í bata frá sjúkdómi sínum, en til þess þyrfti hann hjálp. Dómari taldi þetta honum til málsbóta þó að á móti þyrfti eins að horfa til þess að ákærði hafði áður verið fundinn sekur um akstur undir áhrifum og gerst sekur um ítrekuð þjófnaðarbrot. Samkvæmt dómvenju væri því ekki tilefni að skilorðsbinda refsinguna sem var ákveðin fangelsi í 7 mánuði.