Konan dvaldi á hjúkrunarheimili í Wolverhampton á Englandi og virtust dætur konunnar, Danielle og Rebecca Hinsley, tala fyrir daufum eyrum stjórnenda hjúkrunarheimilisins þegar spurt var út í áverka og breytingar á hegðun móður sinnar.
Danielle og Rebecca tóku málin í eigin hendur og komu fyrir falinni myndavél inni á herbergi móður sinnar. Má segja að þær hafi fengið áfall þegar þær fóru yfir upptökurnar en á þeim mátti sjá, svart á hvítu, hvernig starfsmenn beittu hana ofbeldi.
Breska blaðið Daily Mail fjallar um þetta og segir að systurnar hafi fyrst lagt fram kvörtun í febrúar 2020. Þær voru óánægðar með viðbrögð stjórnenda og komu því fyrir lítilli myndavél af gerðinni Yi Eye ofan á myndaramma í herberginu.
Myndavélin var á rammanum í fjóra daga og á upptökum má sjá hvernig starfsmenn beittu konuna andlegu og líkamlegu ofbeldi. Þeir gerðu grín að henni, ýttu henni, klipu hana og slógu kodda í höfuð hennar. Tekið er fram í umfjöllun Daily Mail að konan hafi á þessum tíma verið ófær um að tjá sig.
Systurnar fóru með upptökurnar til lögreglu og voru þrír starfsmenn dæmdir í samtals 18 mánaða fangelsi undir lok síðasta árs.
Danielle segir við Daily Mail að þær systur hafi tekið eftir miklum breytingum á hegðun móður sinnar í ársbyrjun 2020. Móðir þeirra lagðist inn á hjúkrunarheimilið nokkrum mánuðum fyrr.
„Hún byrjaði að slá frá sér og lamdi bæði mig og systur mína og öskraði á okkur. Daginn eftir heimsóttum við hana og þá var hún með marbletti á höndum, andliti og höfði,“ segir Danielle sem segir að stjórnendur hjúkrunarheimilisins hafi beðið um að fá myndir sendar af meintum áverkum. Ákváðu þær systur því að kaupa myndavél þar sem þær vissu að einhver væri að meiða hana.
„Þegar við skoðuðum upptökurnar fengum við áfall. Að sjá þetta braut í okkur hjörtun,“ segir hún.
Dætur konunnar segjast ekki vilja nafngreina hjúkrunarheimilið sem um ræðir enda hafi ný stjórn tekið við því og starfsmennirnir sem beittu ofbeldinu verið reknir. Vel hafi verið hugsað um móður þeirra uns hún lést í október síðastliðnum.