Skemmtistaðurinn sem stendur við Bankastræti 5 mun aftur heita B5. Frá þessu greinir eigandinn Sverrir Einar Eiríksson á samfélagsmiðlum.
„Við höfum aftur tekið í notkun nafnið B5 á skemmtistað okkar í Bankastræti 5,“ segir Sverrir. „Í gangi er dómsmál þar sem tekist er á um notkun nafnsins, en lögmaður okkar, Sveinn Andri Sveinsson, segir ekki séu forsendur til þess að meina okkur að notast við skammstöfun á heimilisfangi staðarins og það geti enginn átt einkarétt sem kemur í veg fyrir lögmæta notkun eigenda á heimilisfangi.“
Sverrir keypti skemmtistaðinn af Birgittu Lílf Björnsdóttur í sumar. Þá var heiti staðarins breytt úr Bankastræti Club í B5. Að sögn Sverris var stefnan að endurvekja þá stemningu sem ríkti á fyrsta áratug aldarinnar, þegar staðurinn gekk undir þessu heiti.
Þá var hins vegar lögð fram lögbannskrafa á heiti staðarins þar sem fyrir var til einkahlutafélag sem átti réttinn á nafninu hjá Hugverkastofu.
Í yfirlýsingu á sínum tíma sagði Sverrir að nafngiftin hefði verið mistök og baðst afsökunar. Á sama tíma tilkynnti hann að staðurinn myndi fá nýtt nafn, B.