Vísindamenn segja að á síðustu ísöld gæti fyrsta fólkið hafa komist frá Asíu til Ameríku yfir ísilagðan sjóinn. Segja þeir að þeir hafi hugsanlega ferðast yfir ísinn og einnig notast við báta til að sigla meðfram ströndinni.
Ef þetta er rétt þá er þetta enn eitt púslið í ráðgátuna um hvernig fólk komst yfir Beringia, sem er landið sem eitt sinn tengdi Asíu og Norður-Ameríku.
Rannsóknin var birt á síðasta ári í vísindaritinu PNAS. Hún beindist upphaflega að því að rannsaka hvort hægt hefði verið að komast yfir Beringia á bátum. Þegar höfundarnir kynntu rannsóknina á ársþingi American Geophysical Union í San Francisco um miðjan desember ræddu þeir um mikilvægi hafíssins.
Tvær kenningar eru uppi um hvernig fyrsta fólkið gæti hafa komist til Ameríku. Sú eldri gengur út á að fólk hafi komist þessa leið þegar Beringia var því sem næst íslaus. En sífellt fleiri gögn benda til að fólk hafi siglt meðfram Kyrrahafsströnd Asíu, Beringia og Norður-Ameríku fyrir rúmlega 15.000 árum. Þá hefðu miklar ísbreiður gert ferðirnar mjög erfiðar.
Það hefur lengi verið erfitt að sannreyna hvor kenningin er rétt, aðallega vegna þess að flestir líklegir staðir, þar sem fólk settist að, eru nú undir sjó. Þetta hefur Live Science eftir Jesse Farmer, hjá University of Massachusetts, sem kom ekki að gerð rannsóknarinnar.
Um 14.000 ára gömul ummerki um búsetu fólks í vesturhluta Kanada hafa fundist.