Það er mikill stuðningur við stríðið meðal rússnesku þjóðarinnar en þar í landi má ekki kalla þetta stríð, þess í stað er þetta kallað „sérstök hernaðaraðgerð“. En þrátt fyrir að það sé mikill stuðningur við stríðið þá er aukinnar stríðsþreytu farið að gæta meðal almennings en enn sem komið er eru engin merki um að skipulögð hreyfing, sem getur skorað ráðamenn í Kreml á hólm varðandi stríðsreksturinn, sé að verða til.
Umfjöllun rússneskra fjölmiðla um stríðið er stýrt af Kreml sem stjórnar flestum fjölmiðlunum eða beitir ritskoðun til að tryggja að sjónarmið Kremlverja stýri umfjölluninni. Þungar refsingar liggja við að mótmæla stríðinu eða bara að kalla stríðið, stríð. Það er því mjög erfitt fyrir hinn almenna rússneska borgara að fá yfirsýn yfir það sem er að gerast í Úkraínu.
Nýlegar tölur frá Levada, sem hefur í sögulegu samhengi verið áreiðanlegasta greiningarstofnun Rússlands, veitir nokkuð mótsagnarkenndar niðurstöður.
74% aðspurðra sögðust styðja það sem kallað er „sérstök hernaðaraðgerð“ en ef spurningin er orðuð aðeins öðruvísi segjast 57% vilja friðarviðræður en 36% vilja halda stríðsrekstrinum áfram.
Finnst þér þetta svolítið misvísandi eða jafnvel ruglingslegt? Það finnst Rússum einnig að mati Lev Gudkov, sem hefur stýrt Levada árum saman. Í samtali við Der Spiegel sagði hann að þrátt fyrir ritskoðun og kúgun skilji fólk að stríðið hefur gríðarlega eyðileggingu í för með sér og mikið mannfall hjá báðum stríðsaðilum. Þetta vekur þó hvorki samúð eða þá tilfinningu að Rússar beri ábyrgð. Áróðurinn getur drepið samúðina sagði Gudkov og vísaði þar til heilaþvottar rússneskra ríkissjónvarpsstöðva sem senda út and-úkraínskan áróður og hafa gert í rúmlega áratug.