Íranir gerðu í gærkvöldi loftárásir á skotmörk í Pakistan sem beindust að vígahópnum Jaish al-Adl. Hermt er að tvö ung börn hafi látist í árásunum sem hafa vakið mikla reiði í Pakistan. Þarlend yfirvöld hafa lýst því yfir að árásirnar muni hafa „alvarlegar afleiðingar“.
Byrjuðu yfirvöld á því að kalla sendiherra sinn í Íran heim og blása allar heimsóknir íranskra stjórnarerindreka af.
Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Pakistan kemur fram að árásirnar hafi verið með öllu tilefnislausar og að þær væru skýrt brot á alþjóðalögum sem og vein árás á fullveldi landsins.
Árásirnar áttu sér stað degi eftir að Íranir gerðu loftárásir á skotmörk í Írak og Sýrlandi. Árásirnar í í Írak beindust að kúrdíska auðkýfingnum auðkýfingurinn Peshraw Dizayee, sem lét lífið í þeim, en hann var sagður útsendari Ísraela en þar stundaði hann umfangsmikil viðskipti.
Ljóst er að árásirnar gera lítið til þess að lægja öldurnar í heimshlutanum sem er vægast sagt eldfimur um þessar mundir.
Árásir Ísraela á Gaza halda áfram af fullum þunga en talið er að um 24,285 Palestínumenn hafi látið lífið síðan að árás Hamas-liða á óbreytta borgara átti sér stað þann 7. október síðastliðinn. Alls hafa 1.139 Ísrael látið lífið.
Átökin virðast einnig vera að dreifast yfir á Vesturbakkann en þar er ástandið afar viðkvæmt.
Þá eru miklar líkur taldar á því að stríð brjótist út milli Hezbollah-samtakanna í Líbanon, sem Íranir styðja, og Ísraela en átök milli þessara stríðandi fylkinga hafa farið stigvaxandi að undanförnu.
Á sama tíma halda loftárásir Bandaríkjamanna, sem beinast að Hútum í Yemen, áfram. Hútar, sem einnig eru sagðir njóta stuðnings Írana, hafa þrátt fyrir þetta ekki látið af árásum sínum á skip sem þeir telja að séu að sigla með vörur og stunda viðskipti við Ísrael. Ljóst er að ástandið er afar alvarlegt í heimshlutanum og líkur á víðtækari stríðsátökunum miklar.