„Mér finnst vandamálin bara vera svo augljós. Maður getur fyrirgefið að tapa leikjum en að tapa þeim svona og gefast upp, það er bara ófyrirgefanlegt. Mér fannst orkustillingin vera léleg, mér fannst bara menn ekki sýna að þeir væru sigurvegarar, sem þeir eru. Það er eitthvað sem er að trufla þá, mér finnst bara margt, sem ég tengi við sjálfur, bara einbeitingin fyrir leik, menn alltaf hlæjandi með græjurnar, þú veist, búnir að slysast inn í gegnum riðilinn með þrjú stig, sem gerðist bara á lokasekúndunum í báðum leikjunum. Það vantar meiri fókus í þetta, það er bara svo augljóst,“ segir Logi Geirsson, sérfræðingur RÚV á EM í Þýskalandi, í viðtali við hlaðvarpið Handkastið.
Ísland tapaði 25-33 gegn Ungverjalandi og þótti leikur liðsins vera arfaslakur. Margir sem hafa lagt orð í belg um frammistöðu liðsins á mótinu telja liðið hafa leikið illa í öllum leikjunum þó að botninum hafi verið náð í leiknum gegn Ungverjum, en liðið hafi náð þremur stigum gegn Serbum og Svartfellingum fyrir heppni. Sigur Svartfellinga gegn Serbum fleytti Íslandi síðan í milliriðil, margir telja það ekki verðskuldað.
Eins og flestir telur Logi að hugarfarið sér engan veginn í lagi hjá liðinu. Logi fór líka hörðum orðum um taktík liðsins en mjög lítið kemur af skotum fyrir utan sem veldur því að andstæðingar Íslands geta leyt sér að spila vörnina mjög aftarlega gegn liðinu og loka þar með fyrir glufur. „Svo bara taktískt, sóknarleikurinn, sjá menn áfram vera að hnoðast inn í þessar varnir, ég bara, ég trúði ekki að ég væri að horfa upp á þetta aftur,“ sagði Logi.
Þjóðin fór á hvolf á netmiðlum í gærkvöld eftir leikinn og óhætt er að segja að umræðan hefur verið neikvæð og hatrömm. Margir sem ofbýður neikvæðnin hafa tjáð sig í dag. Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, biður fólk að gæta orða sinna, en segir væntingar hafa verið skrúfaðar upp fyrir mótið:
„Það er eins og íslenska þjóðin hafi orðið fyrir miklu áfalli við 8 marka tap landsliðs okkar í leiknum við Ungverja á Evrópumótinu í handbolta sem nú stendur yfir. Hvers vegna ætli að svo sé? Við erum á þessu móti að etja kappi við mörg af bestu landsliðum heims í handbolta. Það má vissulega fallast á að liðsmenn okkar hafi oft sýnt betri leik en birtist okkur þarna. Við getum hins vegar varla gert fyrirfram ráð fyrir að sigra alla andstæðinga okkar á svona sterku móti. Okkar leikmenn eiga góða daga og slæma eins og gerist í öllum íþróttum. Þetta var einn af þeim slæmu.
Ég held að ástæðan fyrir þessu mikla áfalli þjóðainnar vegna þessa taps eigi aðallega rót sína að rekja til þess að fyrirsvarsmenn liðsins, leikmenn þess sem og fréttamenn og fjölmargir aðrir „sérfræðingar“ hafi verið búnir að skapa allt of glaðbeittar væntingar um sigur okkar manna.“
Jón Steinar veltir því upp hvort liðið myndi leika betur ef ekki væri búið að ákveða fyrirfram að sigurinn væri bókaður:
„Og kannski gætu okkar liðsmenn átt betri dag í kappleikjum sínum ef fyrirfram hefur verið gert ráð fyrir þeim möguleika að viðkomandi leikur kunni að tapast. Fyrirfram sigrar í viðfangsefnum lífsins hafa aldrei kunnað góðri lukku að stýra. Þeir geta miklu fremur lagt álag á keppnismenn okkar sem þeir a.m.k. stundum geta ekki staðið undir. Hér sem endranær er auðmýkt og lítillæti áreiðanlega besta veganestið. Sigur er líka miklu ánægjulegri þegar hann hefur unnist á leikvellinum en ekki í sjálfumgleði okkar fyrirfram.“
Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði, sem mikið hefur rannsakað íþróttir, leitast við að horfa heildstætt á vandann og segir yfirborðslegar staðhæfingar vera gagnslausar:
„Lið eru eitthvað meira en summa einingana sem mynda þau. Þannig myndast eitthvað félaglegt afl í liðum, sem getur hjálpað þeim að ná árangri eða lagt steina í götu þeirra. Þegar þetta félagslega afl er eflandi þá eru allir liðmenn að spila vel, ef það er heftandi þá er enginn að spila vel. Það er því ekki hægt að smætta árangur liða niður í einstaklinga þeirra eins og þegar leikmenn segja “ég þarf bara að gera betur” eða þegar sagt er “leikmenn verða bara að nýta færin sín”. Slíkar yfirborðskenndar staðhæfingar (eða „skýringar“) ná ekki að rótum vandans og skila engu.“
Viðar fer djúpt í málið í nokkuð löngum pistli en segir meðal annars:
Það gæti einnig verið að liðinu skorti skýrari stjórnun, festu og aga. Kannski er hlutverkaskipan ekki nógu skýr, eins og í leikstjórnun, sem skapar óöryggi hjá liðinu – og ekki síst þegar á móti blæs – og hefur birst í leik liðsins. Þessu tengt þá kom upp dæmi í leiknum gegn Serbum þar sem Ísland komst 5 mörkum yfir (ef ég man rétt) en í kjölfarið skynjaði ég vott af agaleysi og kæruleysi hjá liðinu (þar sem það fór að slútta snemma og illa) og komu Serbarnir því strax til baka.
Þetta eru bara tilgátur sem gætu hugsanlega skýrt eitthvað af því hvernig þetta félagslega liðsafl vinnur ekki með liðinu þessa dagana og setur alla leikmenn þess niður. Það er erfitt að festa fingur á þessu afli, en ég útskýri þetta afl sem raunverulegt afl í mun lenga máli í bókinni Sjáum samfélagið sem er væntanleg eftir mig í mars/apríl.
Viðar blæs á tal um að liðið sé áhugalaust og leikmenn séu ekki að leggja sig fram:
„Að þessu sögðu þá er af og frá að halda því fram að leikmenn séu áhugalausir, ekki að leggja sig fram, eða verði lélegir í handbolta á einni nóttu. Allir leikmenn handboltalandsliðsins eru góðir í handbolta og eru að leggja sig 100% fram af hjarta og sál. Það eitt veit ég fyrir víst. Það er eitthvað annað og meira í gangi sem gerir það að verkum að leikmenn ná ekki fram sínu besta. Það er eitthvað í hinu félagslega afli sem truflar þá. Vandinn er kollektívur en ekki bundinn við einstaklinga. Við þurfum því nýjar hugmyndir til að reyna að skilja, greina og laga vanda liðsins – að hugsa út fyrir boxið í stað þess að grípa í innihaldslausa frasa sem engu skila.
Áfram Ísland!“
Ísland hefur leik í milliriðli á morgun er liðið etur kappi við heimamenn, Þjóðverja.