Spænska knattspyrnuliðið Sevilla skaut á Mason Greenwood, leikmann Getafe, eftir leik liðanna í gær.
Liðin mættust í spænska bikarnum og vann Sevilla góðan 1-3 útisigur.
Greenwood, sem er á láni hjá Getafe frá Manchester United, byrjaði inn á en náði ekki að setja mark sitt á leikinn.
Reynslubolinn Sergio Ramos var í hjarta varnarinnar hjá Sevilla, átti góðan leik og skoraði fyrsta mark sinna manna.
„Sergio Ramos að tæma rassvasann eftir leik í gærkvöldi,“ stóð í færslu Sevilla á samfélagsmiðlum eftir leik. Var þar mynd af síma, veski, lyklum og loks Greenwood.
Greenwood hefur skorað fimm mörk og lagt upp fjögur með Getafe á leiktíðinni. Lánssamningur hans gildir út leiktíðina en afar ólíklegt er að hann snúi aftur til United.
Sergio Ramos emptying his back pocket after the game tonight: pic.twitter.com/aexb2HMcNA
— Sevilla FC (@SevillaFC_ENG) January 16, 2024