Óli Björn skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann kallar eftir því að ríkið kaupi allt íbúðarhúsnæði í Grindavík, fyrir utan það sem Náttúruhamfaratrygging hefur dæmt ónýtt og mun því bæta.
„Um leið verði eigendum veittur forkaupsréttur að eignum sínum, þannig að þeir geti gengið að þeim vísum þegar óvissuástandi lýkur og þeir ákveða að snúa aftur heim,“ segir hann í grein sinni.
Annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmur Árnason, hefur einnig kallað eftir þessu en Vilhjálmur er einmitt búsettur í Grindavík.
„Það er rétt hjá félaga mínum og vini, Vilhjálmi Árnasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, að með uppkaupum fá Grindvíkingar nauðsynlegt svigrúm, jafnt andlegt sem fjárhagslegt. Þeir fá tækifæri til að taka ákvörðun til skemmri og lengri tíma til að koma lífi fjölskyldunnar í fastari skorður, á eigin forsendum en ekki samkvæmt forskrift hins opinbera. Slíkt er í takt við eðli Grindvíkinga sem vilja standa á eigin fótum, skapa sér eigin framtíð. Skapgerð Grindvíkinga mótaði eitt blómlegasta sveitarfélag landsins,“ segir Óli Björn.