„Á fyrstu vikum og mánuðum eftir hrun tók ríkissjóður á sig líklega um 600 milljarðar króna vegna annars vegar „ástarbréfa“ hjá Seðlabankanum og hins vegar stofnfjár til nýrra banka. Af um 370 milljörðum króna í „ástarbréfunum“ voru um 270 milljarðar króna afskrifaðar með einu pennastriki og restin var afskrifuð 1-2 árum síðar. Ríkissjóður þurfti ekki að gera þetta, hafði ekki efni á því, en þetta var metið nauðsynlegt.
Spólum áfram rúm 15 ár. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, nefndi á íbúafundinum í dag að það kostaði 115 milljarða króna að kaupa upp húsnæði Grindvíkinga. En er þetta virkilega sú fjárhæð sem þyrfti að greiða íbúum Grindavíkur, ef ríkissjóður tæki yfir allar íbúðareignir í eigu einstaklinga í bænum? Íbúðareignir í eigu lögaðila teljast atvinnueignir,
segir Marinó G. Njálsson, ráðgjafi og sérfræðingur í áhættustjórnun, öryggismálum og persónuvernd.
Íbúafundur fyrir Grindvíkinga fór fram í Laugardalshöll í gær. Fjölmargir fluttu erindi og sátu síðan í pallborði og svöruðu spurningum Grindvíkinga um hin ýmsu málefni sem á þeim brenna.
Óþarfi er að tíunda þær hörmungar sem dunið hafa yfir Grindavík og íbúa síðustu vikur, þær eru alþjóð kunnar, en íbúafundurinn var þéttsettinn og margir sem báru fram spurningar á fundinum sem er um 2,5 klst. að lengd.
Horfa má af upptöku af fundinum hér fyrir neðan:
Á meðal þeirra sem sátu í pallborði var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra og tók hún til máls og sagði að það kostaði 120-140 milljarða króna að kaupa upp húsnæði Grindvíkinga (athugið sem er hærri upphæð en Marinó tilgreinir í færslu sinni á Facebook):
Marinó segir fjármálaráðherra ofmeta fjárhæðina sem það kostar að greiða alla Grindvíkinga út þegar kemur að íbúðarhúsnæði. Fer hann nánar yfir útreikning:
1) Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) er heildarfasteignamat íbúðareigna 72,8 milljarðar króna vegna ársins 2024 (sjá meðfylgjandi mynd). (Tekið fram, að ég er eingöngu að skoða íbúðareignir. Aðrar eignir eru með fasteignamat upp á rúmlega 33,6 milljarða króna).
2) Brunabótamat eignanna sveiflast talsvert (byggt á upplýsingum fyrir árin 2018-2023 í Kaupskrá fasteigna, sem HMS heldur utan um, er munurinn að meðaltali rúm 9%). Forstjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands (NTÍ) greindi frá því, að gera mætti ráð fyrir að bótafjárhæð væri um 10-12% lægri en brunabótamatið. Þetta þýðir í raun, að bótafjárhæð vegna altjóns er ca. 2-3% lægri en fasteignamatið fyrir 2024.
3) Samkvæmt tölum úr skattskýrslum vegna tekjuársins 2022 og finna má á vef Skattsins, var meðalskuldsetning fasteigna einstaklinga um 30% fyrir landið allt í árslok 31.12.2022. Af 72,8 milljarða króna fasteignamati, þá má því búast við að skuldir nemi 22 milljörðum króna.
4) Sé gert ráð fyrir, að ofangreindar upplýsingar séu nokkuð nærri lagi, stæðu þá um 50 milljarðar króna eftir, sem væri sú fjárhæð sem ríkið þyrfti að greiða út til íbúðareigenda í Grindvík, það er einstaklinga. Hún er nokkuð nærri þeirri fjárhæð sem endurtryggingar NTÍ ná til. Hvort ríkið velji síðan, að taka yfir áhvílandi lán eða greiða þau upp, kemur núverandi eigendum ekkert við. Gleymum svo ekki að ríkið eignast húsnæðið á móti.
5) Þegar hefur einhver fjöldi íbúðareigna orðið fyrir altjóni. Mjög margar hafa orðið fyrir miklu tjóni. Fjárhæð þessa tjóns þarf NTÍ hvort eð er að greiða út og kemur því til frádráttar 50 milljarðar króna að ofan. Enn lækkar því fjárhæðin sem þyrfti að greiða út án þess að burðarvirki húsa hafi eyðilaggst.
Ég ætla að leyfa mér að treysta upplýsingum NTÍ, HMS og Skattsins og met upphæðina upphæðina umtalsvert lægri en Þórdís Kolbrún og ráðuneytið. Helsti munurinn á mínum útreikningum og ráðuneytisins er að a) ráðuneytið virðist ekki draga frá kostnað vegna förgunar, sem NTÍ metur um 10-12% af brunabótamati; b) ekki er tekið tillit til þess, að fólk er skuldsett og við yfirtöku eigna, þá er það í valdi nýs eiganda að ákveða hvort áhvílandi lán eru greidd upp eða haldið áfram að greiða af þeim, sem væri kannski 2 milljarðar króna á ári; c) þar sem fundurinn var íbúafundur, þá horfi ég eingöngu til íbúðaeigna; d) greiða þarf bætur vegna tjóns á húsnæði út um alla Grindavík.
Við þetta fer upphæðin því úr 115 milljörðum króna niður í líklega um 40-45 milljarða króna, en það veltur á lánum sem hvíla á íbúðareignunum. Ég held að þetta sé fjárhæð, sem ríkissjóður fer léttilega með. Að minnsta kosti tafðist ekkert fyrir ríkissjóði að greiða álíka upphæð „til veitingastaða og annarra [fyrirtækja] sem þurftu að draga úr starfsemi í faraldrinum“, samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra í júlí 2022.
Ég átta mig á því, að eftir standa fasteignir með fasteignamat upp á 33,6 milljarða króna. Ég er ekki að gera lítið úr þeim eignum eða þörfum þeirra sem þær eiga. Íbúar Grindavíkur þurfa hins vegar úrlausn sinna mála og það er auðveldara, þegar tölur eru í samræmi við opinber gögn.“