Daninn Rasmus Boysen, einn helsti handboltasérfræðingur heimsins, hefur eins og fleiri orðið fyrir miklum vonbrigðum með leik íslenska landsliðsins á Evrópumeistaramótinu í handknattleik. Beinir Boysen helst spjótum sínum að sóknarleik liðsins sem hefur verið afar ósannfærandi.
„Á undanförnum árum hefur verið unaðslegt að fylgjast með íslenska sóknarleiknum. Í ár er sóknarleikur Íslands ein helstu vonbrigði mótsins. Hvað veldur? Gæðin eru svo mikil,“ segir Boysen á Twitter-síðu sinni sem um 24 þúsund handboltaunnendur fylgja.
Nokkur umræða skapast um ástæður þess að gengi Íslands sé ekki eins og búist var við. Bendir einn netverji á að markverðir liðsins, sér í lagi Viktor Gísli Hallgrímsson, séu ekki að verja mörg skot. Svarar Boysen því til að íslenska vörnin sé ekki upp á marga fiska heldur og þá viðrar hann þá skoðun sína að íslenski markvörðurinn sé ofmetinn.
Danski íþróttablaðamaðurinn Søren Paaske bendir á þjálfara liðsins, Snorra Stein Guðjónsson, og segir að ferilskrá hans sem þjálfara sé talsvert tilkomuminni en annarra þjálfara á mótinu. „Mjög ósannfærandi taktískt. Þetta eru góðir leikmenn sem virka óöruggir í því kerfi sem þjálfarinn er að reyna að leggja upp með. Algjört andlegt hrun í dag. Þetta skrifast á þjálfarana,“ segir Paaske.