Rio Ferdinand fyrrum varnarmaður Manchester United segir að Arsenal eigi að nýta sér vandræði Newcastle og kaupa Alexander Isak í sóknarlínuna.
Newcastle er í vandræðum með FFP fjármagnsreglur fótboltafélaga en félagið hefur eytt talsvert meira en tekjurnar þeirra eru.
Eigendur Newcastle eru meðvitaðir um þetta og hafa látið vita af því að líklega þurfi félagið að selja leikmenn til að geta keypt leikmenn.
„Alexander Isak var að taka hlaupin inn fyrir vörnina gegn City, ef ég er Arsenal þá fer ég alla leið og reyni að kaupa hann,“ segir Ferdinand.
„Af hverju? Newcastle getur ekki eytt peningum, þeir eru í vandræðum með reglurnar. Það er hægt að stökkva á þetta.“
Arsenal vantar öflugan framherja og er talið að félagið sé að skoða þá kosti sem eru í boði.