Bandarískur karlmaður sem fékk slæma útreið í Facebook-hóp sem helgaður er slæmum stefnumótasögum, hefur ákveðið að draga hörðustu gagnrýnendur sína fyrir dóm og krefur þær um milljónir.
Erum við að hitta sama manninn, eða „Are we dating the same guy“ er vinsæll frasi á Facebook og hafa sprottið óteljandi hópar fram með þessu nafni þar sem konur á tilteknum svæðum eða stórborgum deila hryllingssögum sínum úr stefnumótaheiminum, bera saman bækur sínar og deila neikvæðum upplifunum til að vara aðrar konur við tilteknum óþokkum. Mál þetta varðar slíkan hóp sem er haldið úti fyrir Chicago en meðlimir eru rúmlega 80 þúsund talsins. Markmið hópsins er að vekja athygli á því sem kallast rauð flögg í fari karlmanna svo hægt sé að forðast eitraða karlmennsku. Hópurinn segist miða að því að vernda konur fremur en að dæma karlmenn.
Það var á þessum hóp sem minnst 27 konur gáfu manni að nafni Nikko D’Ambrosio falleinkunn. Konurnar voru á einu máli um að Nikko væri ekki vænlegur til undaneldis, hann væri enginn prins heldur óforbætanlegur froskur sem enginn koss gæti leyst undan göllum sínum. Hann væri ýmist uppáþrengjandi, geðsjúkur eða léti sig hverfa eins og hendi væri veifað í athæfi sem í daglegu tali kallast að „ghost-a“, með öðrum orðum að hverfa líkt og viðkomandi hafi hreinlega geispað golunni.
Nú hefur Nikko stefnt þessum 27 konum sem harðast gengu gegn honum fyrir dóm. Hann krefur þær um 10 milljónir í miskabætur og hefur farið fram á lögbann sem meini þeim að tjá sig um hann í áðurnefndum hóp. Nikko segir þær sekar um meiðyrði gegn sér sem og netníð en með hátterni sínu hafi þær gróflega brotið gegn friðhelgi einkalífs hans. Stefnan var lögð fram fyrr í þessari viku en þar segir Nikko að hann sé ekki eini þolandi hópsins heldur hafi þúsundir manna orðið fyrir meiðyrðum, margir án þess að átta sig á því. Þar fái konur að slengja fram fullyrðingum um karlmenn sem hafa með engu móti verið sannaðar.
Nikko hafi stundað kynlíf með konu þar sem gagnkvæmt samþykki var fyrir hendi. Hún hafi í kjölfarið birt mynd af honum inn á þessum hóp og þar hafi aðrar konur lýst reynslu sinni af honum í athugasemdum. Þessi ummæli hafi verið til þess fallið að smána Nikko, valda honum tilfinningalegu tjóni, mannorðsmissi og eins tekjutapi.
Nikko lét ekki þarna við sitja heldur h efur hann eins stefnt deildum hjá samfélagsmiðlinum Meta, en hann segir fyrirtækið græða á því að auglýsa á hópum sem þessum þar sem meiðyrði fá að birtast átölulaust. Eins stefndi hann Patreon, arewedatingthesame.com vefsíðunni og GoFundMe.
Hópar sem þessi sem hér um ræðir hafa áður ratað á síður fjölmiðla þar sem stöðu þeirra gagnvart lögum er velt upp. Þarna sé í raun eins konar hópsöfnun frásagna kvenna sem safnað er saman í þeim tilgangi að auka öryggi kvenna í ástarleit. Hér á Íslandi hafa verið sambærilegir hópar þar sem varað hefur verið við nafngreindum einstaklingum. Sama gagnrýni hefur komið fram hér á landi og erlendis. Þarna séu menn stundum bornir þungum sökum án þess að fá að svara fyrir sig, eða án þess að frásögn sé studd frekari gögnum. Á móti hafa konur hins vegar bent að þegar horft er á tölfræði hvað varðar kynferðisbrot og annað ofbeldi gegn konum þá séu menn í flestum tilvikum karlmenn og hvorki lög né óskráðar reglur samfélagsins hafi hingað til dugað til að bæta öryggi þeirra. Það hafi því verið eðlileg þróun að dag einn tækju konur sig sjálfar saman til að gera karlmenn ábyrga fyrir hegðun sinni, fyrst enginn annari var tilbúinn að taka verkefnið að sér.
Lögmaður Nikko hefur auglýst eftir fleiri meintum þolendum hópsins til að ganga til liðs við lögsóknina.