Starfsmenn Endor dótturfélags Sýnar gáfu börnum í Afríku 50 notaðar fartölvur. Allar tölvurnar voru uppfærðar með nýju stýrikerfi fyrir afhendingu.
„Samstarfsfélagar okkar í Netkerfi og tölvur á Akureyri höfðu samband við okkur til þess að athuga hvort að við gætum stutt ABC barnahjálp með tölvubúnað fyrir börn í Burkina Faso í Afríku. Við áttum þó nokkrar fartölvur úr starfsemi Sýnar sem voru ekki lengur í notkun. Ákveðið var að gefa þær tölvur og hófumst við handa við að undirbúa vélarnar fyrir þarfir ungra nemenda í Afríku. ABC barnahjálp afhenti skólanum svo tölvurnar. Ungir nemendur á leið í framhaldsnám fá tölvurnar sem að án efa eiga eftir að koma að góðum notum þar sem að slíkur búnaður er sjaldgæfur á þessum slóðum. Sýn leggur sérstaka áherslu á að virkja hringrás í allri sinni starfsemi og passaði verkefni mjög vel að þeirri stefnu þar sem að þessar tölvur hafa nú fengið gjöfult framhaldslíf,“ segir Árni Guðmundsson, tæknimaður hjá Sýn.