Amir Ibragimov er nafn sem fáir hafa heyrt af en þessi 15 ára knattspyrnumaður frá Rússlandi er byrjaður að vekja athygli hjá Manchester United.
Ibragimov skoraði fjögur mörk í 4-1 sigri U16 ára liðs Manchester United gegn Newcastle á dögunum.
Hann er sagður einn efnilegasti leikmaður sem þjálfarar United hafa séð í mörg ár. Hann fundaði á dögunum með Sir Alex Ferguson og fóru þeir yfir málin.
Ibragimov hefur undanfarnar vikur dottið inn á æfingar með aðalliði félagsins, ekki eru margir á hans aldri sem fá þannig tækifæri.
Ibragimov fæddist í Rússlandi en flutti með fjölskyldu sinni til Englands fyrir nokkrum árum síðan, hann var fyrst í unglingaliði Sheffield United en United sótti hann þaðan.
Ibragimov getuir spilað fyrir bæði Rússland og England en hann hefur komið við sögu í yngri liðum Englands og er talinn líklegur til þess að velja England frekar en heimalandið.
„Ég sé hann fyrir mér sem tíu, eins og Wayne Rooney. Keyra upp völlinn, tæklandi og sækjandi,“ segir Raducio King þjálfari hjá United.
„Hann getur bæði sótt og varist, þú verður að vera með báðar fætur á jörðinni og leggja hart að þér til að ná alla leið.“