Enska úrvalsdeildin kærði í gær Everton og Nottingham Forest. Stjóri síðarnefnda liðsins er þó rólegur.
Kæran er vegna brota á reglum um hagnað og sjálfbærni, en Everton hefur þegar verið refsað á þessari leiktíð. Tíu stig voru dregin af liðinu í nóvember.
Nú gæti félagið hlotið refsingu á ný, sem og Nottingham Forest, sem hefur eytt 250 milljónum punda í leikmenn á rúmum átján mánuðum. Stig gætu nú verið dregin af báðum félögum.
„Við verðum að halda áfram okkar vinnu. Jafnvægi hópsins er mikilvægt, við þurfum að ná skipulagi á hann,“ segir Nuno Espirito Santo, sem tók við sem stjóri Forest nýverið.
Forest er í fallbaráttu en hefur tekið við sér eftir að Nuno tók við.
„Við verðum að bæta okkur. Það er ekki auðvelt í þessum glugga en við erum að vinna í því.“