Þetta segir fjölmiðlakonan Lára Ómarsdóttir á Facebook-síðu sinni.
Lára birtir í pistli sínum nokkrar spurningar sem hún vill gjarnan koma á framfæri til yfirvalda fyrir hönd þeirra sem hún hefur rætt við.
Í fyrsta lagi spyr hún hvenær Grindvíkingar fá að huga að eigum sínum.
„Í Vestmannaeyjagosinu var fljótlega eftir að gos hófst farið í að bjarga eigum fólks og innbúi. Eins fengu fyrirtæki að bjarga verðmætum. Þá fékk fólk að panta björgun og inn í bæinn fór fólk og sótti það sem óskað var eftir að yrði sótt. Þannig tókst að bjarga miklu. Er ómögulegt að gera slíkt hið sama nú og ef svo er, hvers vegna?“
Í öðru lagi spyr Lára hvort allur bærinn sé ónýtur.
„Við sjáum bara myndir af eyðileggingu í fjölmiðlum. Talað er um að bærinn hafi gliðnað um næstum einn og hálfan metra og að hættulegt sé að vera þar vegna þess að sprungur geti opnað fyrirvaralaust. Á þetta við um allan bæinn eða bara hluta hans? Eru einhver heil hús eða heilar götur í Grindavík? Ef svo er, hvar er óhætt að vera og hvar ekki? Má þá fólk sem þar býr fljótlega fara heim og huga að eignum sínum?“
Lára spyr svo í þriðja lagi hver staðan er á hafnarsvæðinu.
„Sjávarútvegur er stór atvinnugrein í Grindavík og lífæð bæjarins er höfnin. Er hún heil? Verður hægt að stunda sjávarútveg þarna aftur og ef svo er, hvenær má búast við því að það verði?“
Þá veltir hún fyrir sér hvað stjórnvöld ætla að gera.
„Mörg vilja ekki snúa aftur til Grindavíkur jafnvel þótt hús þeirra séu heil. Ætla stjórnvöld að kaupa öll hús í bænum eða bjóða Grindvíkingum sem ekki vilja snúa aftur einhverja aðstoð? Í hvaða formi verður sú aðstoð og hvenær má vænta svara frá stjórnvöldum varðandi það?“
Loks spyr Lára hvar fólk eigi að vinna í framtíðinni.
„Fjöldi Grindvíkinga starfar í bænum. Nú þegar ekki er að hægt að vinna þar spyrja sum sig hvort þau eigi að leita að annarri vinnu eða bíða og sjá til með það. Óvissan er vond.“
Lára segir að þó ekki sé hægt að svara þessum spurningum núna þá geta stjórnvöld reynt að fullvissa Grindvíkinga um að þeim verði hjálpað, ástandið sé tímabundið og að stjórnvöld ætli, sama hvað, að aðstoða öll sem þarna hafa búið. „Ég held að við sem samfélag viljum að það verði gert,“ segir hún í færslu sinni.